Tindastóll með sjónvarpsstöð á YouTube

Nýlega setti Knattspyrnudeild Tindastóls á fót sjónvarpsstöð - innan gæsalappa - á YouTube. Þar má meðal annars finna klippur úr leikjum Tindastóls/Hvatar sem spilaðir eru nú í vetur og á vordögum og viðtöl við leikmenn og þjálfara. Frábært framtak sem gerir áhugamönnum um sparktækni á Norðurlandi vestra kleift að fylgjast með sínum mönnum.

Í byrjun aldarinnar kom fyrir að knattspyrnumenn reimuðu á sig malarskó á vorin og léku æfingaleiki á oft á tíðum gljúpum drulludýjum sem kölluðust malarvellir. Þess konar vellir voru til í öllum betri byggðarlögum en eru nú nánast orðnir gjaldgengir á byggðasöfn.

Nú leika flest lið alla æfingaleiki sína í knattspyrnuhöllum í stærstu bæjum landsins og því kannski meira mál en oft áður fyrir stuðningsmenn að fylgjast með því sem er að gerast, þar sem engir æfingaleikir fara fram í heimabyggðinni.

En TindastóllTV ætti að létta undir með áhugasömum. Að sögn Ómars Braga Stefánssonar formanns knattspyrnudeildar Tindastóls er ætlunin að taka upp leiki meistaraflokka félagsins og sömuleiðis yngri flokka. Nú þegar er hægt að finna myndbrot og umfjöllun um Króksmótið og klippur frá völdum leikjum meistaraflokks frá í fyrrasumar.

Slóðin á TindastólsTV er http://www.youtube.com/user/TindastollTV

Fleiri fréttir