Tindastóll semur aftur við P.J. Alawoya en King kveður

P.J. Alawoya í leik gegn ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA
P.J. Alawoya í leik gegn ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA

Í tilkynningu sem Feyki barst rétt í þessu frá Körfuknattleiksdeild Tindastóls segir að KKD Tindastóls hefur samið við leikmanninn P.J. Alawoya um að leika með liðinu út tímabilið. Þá er ljóst að bæði Urald King og Michael Ojo spiluðu í gærkvöldi sinn síðasta leik með liði Tindastóls.

Tilkynning KKD Tindastóls er á þessa leið: „KKD Tindastóls hefur samið við leikmanninn P.J Alawoya um að leika með liðinu út tímabilið.

Stuðningsmenn Tindastóls þekkja Alawoya vel en hann lék með liðinu fyrr á þessu tímabili í fjarveru Urald King. Alawoya er væntanlegur til landsins á næstu dögum og er mikil tilhlökkun að sjá leikmanninn klæðast Tindastólstreyju að nýju. 

Jafnframt hefur verið gert samkomulag við Urald King um að leikmaðurinn losni undan samningi við liðið og yfirgefi herbúðir Tindastóls. KKD Tindastóls vil þakka Urald King fyrir sitt framlag til deildarinnar og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. KKD Tindastóls hefur einnig tekið þá ákvörðun að bjóða bakverðinum Michael Ojo ekki samning við liðið.“

Samkvæmt upplýsingum Feykis var Urald ekki 100% heill og því samið um starfslok hans en hann hefur ekki náð sér á strik með Stólunum eftir að hafa meiðst í fyrsta leik á nýju ári. Þá var Ojo á reynslusamningi í mánuð og þar sem Stólarnir spila ekki aftur fyrr en í mars er ljóst að hann spilar ekki meira með liðinu og hafa bæði King og Ojo yfirgefið lið Tindastóls.

Lið Tindastóls hefur alls ekki spilað vel í ár eða frá því að P.J. Alawoya yfirgaf liðið en hann spilaði með Stólunum í fjarveru Urald King í nóvember og desember. Með Alawoya í liðinu vann Tindastóll alla sína leiki. Nú er bara spurning hvort þessar breytingar stuðli aftur að jafnvægi í leik Tindastóls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir