Tindastóll skiptir út erlendum leikmönnum
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur ákveðið að rifta samningum við þrjá af fjórum erlendum leikmönnum sínum og kalla tvo í staðinn til starfa. Um er að ræða þá Josh Rivers, Dimitar Petrushev og Radoslav Kolev og hafa þeir því leikið sinn síðasta leik fyrir Stólana.
Eins og glöggt má sjá á stöðu liðsins í úrvalsdeildinni er einhverra breytinga þörf þrátt fyrir batamerki liðsins í síðasta leik gegn Snæfelli.
Nýju leikmennirnir eru Sean Cunningham, sem hefur hollenskt vegabréf, en hann spilar stöðu leikstjórnanda. Hinn leikmaðurinn er Hayward Fain en hann kemur til með að spila stöðu framherja.
Sean kemur til landsins á mánudag og stefnt er á að Hayward verði kominn fyrir næsta leik Stólanna, gegn Breiðabliki í bikarkeppninni um næstu helgi.

