Tindastólsstúlkur mæta KR í Mjólkurbikarnum í kvöld

Þessar verða í eldlínunni í kvöld. MYND: ÓAB
Þessar verða í eldlínunni í kvöld. MYND: ÓAB

Leikurinn leggst vel í okkur. Þetta verður auðvitað svona dæmigerður leikur það sem nákvæmlega allt er að vinna og akkúrat engu að tapa,“ segir Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara kvennaliðs Tindastóls, í spjalli við Feyki. Leikurinn umræddi er í Mjólkurbikarnum en Tindastólsstúlkur brenna suður í borgina í dag og leika við lið KR á Meistaravöllum Vesturbæinga. Leikurinn hefst kl. 19:15 og allt ólseigt Tindastólsfólk er hvatt til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar okkar. 

Verkefnið er ekki smávaxið að mati Jónsa. „Við erum að fara að spila við lið sem hefur fimm byrjunarliðsleikmenn sem eiga A landsleiki fyrir Íslands hönd. Þetta er afar reynt lið, svo mikið er víst. En hafandi sagt það þá hef ég fulla trú á að við getum strítt þeim helling!

Hvernig er ástandið á leikmannahópnum? „Staðan á leikmönnum er svoltið misjöfn verður að viðurkennast, enda verður um að ræða þriðja leikinn á sjö dögum þegar við mætum á KR-völlinn. Það eru allnokkrar lemstraðar en ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að við getum nú samt sem áður valið úr öllum leikmannahópnum þegar á hólminn er komið,“ segir Jónsi fjallbrattur.

Feykir óskar stelpunum góðs gengis í kvöld. Áfram Tindastóll!

Uppfært 10. júlí kl.13:04:
Bergljót Pétursdóttir verður ekki með í kvöld sökum meiðsla og þá er Krista Sól að sjálfsögðu fjarri góðu gamni en hún sleit krossbönd fyrir um ári síðan og er smátt og smátt að styrkjast. Mögulega verður hún komin á ferðina áður en tímabilinu lýkur í haust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir