Töluvert sanngjarn sigur Tindastólspilta

Konni fagnar markinu sem hann gerði í uppbótartíma. Með honum má sjá Jóhann Daða, David Bercedo og Benna Blönduósiing sem er enn og aftur mættur í Tindastólsgallann. MYND: ÓAB
Konni fagnar markinu sem hann gerði í uppbótartíma. Með honum má sjá Jóhann Daða, David Bercedo og Benna Blönduósiing sem er enn og aftur mættur í Tindastólsgallann. MYND: ÓAB

Tindastólspiltar spiluðu fyrsta heimaleik sumarsins í gær þegar Reykjanesúrvalið mætti á gervigrasið sígræna á Sauðárkróki. Leikurinn var spilaður við fínar aðstæður og var líflegur, þó sérstaklega í fyrri hálfleik en þá baðaði markvörður gestanna sig í sviðsljósinu og hélt markinu hreinu. Stólarnir gerðu það sem þurfti í síðari hálfleik og uppskáru 2-0 sigur.

Fyrri hálfleikur einkenndist af stanslausri sókn Stólanna og á löngum köflum frabæru spili. Hvernig heimamönnum tókst að skora ekki í löngum fyrri hálfleik má undrum sæta því hvert færið rak annað og þar af voru mörg dauðafæri. Ibrahima Jallow var stór í marki gestanna og hann átti stórleik þrátt fyrir að honum væri nánast fyrirmunað að grípa boltann. Hvað eftir annað varði hann dúndurskot, komst í boltann þegar Stólarnir spiluðu sig í gegnum vörn RB og ef hann klikkaði þá fór boltinn í stangirnar eða bara framhjá. Gestirnir voru mikið í því að hægja á leiknum og kannski hafði það einhver áhrif á einbeitingu heimamanna fyrir framan markið.

Stólarnir héldu ekki sama dampi í síðari hálfleik og gestirnir komust meira inn í leikinn, enda höfðu þeir varla farið fram yfir miðju í fyrri hálfleik. Engu að síður voru heimamenn með undirtökin en voru ekki að skapa sér færi líkt og í fyrri hálfleiknum. Fyrsta mark leiksins kom á 62. mínútu en þá gerði Dominic Furness frábært mark úr aukaspyrnu af um 25 metra færi, átti góða spyrnu í fjærhornið sem Jallow hefði nú sennilega átt að verja. Síðasta stundarfjórðunginn varð leikurinn býsna villtur en þá reyndu gestirnir að jafna og tóku áhættu. Þeir áttu 2-3 sénsa en staðan var viðkvæm og rán um hábjartan dag hefði getað raungerst. Sem betur fer kláruðu Stólarnir dæmið á annari mínútu uppbótartíma þegar leikmaður Stóla var straujaður niður í vítateignum eftir skyndisókn. Konni fór á punktinn og kláraði dæmið af öryggi.

Með sigrinum skutu Stólarnir sér upp í þriðja sæti deildarinnar og eiga einn leik til góða. Lið Tindastóls er með ellefu stig að loknum sex leikjum en efst er lið Ýmis með 18 stig og Hamar með 17. Stólarnir hafa gert jafntefli við bæði þessi lið á útivelli og mega ekki hleypa þeim langt fram úr ef þeir ætla að berjast um sæti í 3. deild. Liðið spilaði skemmtilegan bolta í gær en færanýtingin var ekki til útflutnings. En menn eru auðvitað óvanir að spila fyrir framan kröfuharða Króksara...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir