Tölvuvædd fjárhús á Brúnastöðum
Á Brúnastöðum í Fljótum hefur nýlega verið fjárfest í tölvubúnaði í fjárhúsunum sem skannar örmerki á hverri kind og kallar fram allar nauðsynlegar upplýsingar um bústofninn. Aðferðir við val á lömbum til slátrunar, sem nú stendur sem hæst í sveitum landsins, eru því talsvert frábrugðnar því sem gengur og gerist. Frá þessu var sagt í kvöldfréttum RÚV í gær.
Öll lömbin á Brúnastöðum eru nú með örmerki í eyranu, þau fara í gegnum tölvubúnað sem skannar merkið, sækir um leið upplýsingar um hvert lamb, viktar þau og flokkar eftir þyngd. Þetta er þó bara ein ástæða þess að Jóhannes H. Ríkharðsson og Stefanía Hjördís Leifsdóttir, kona hans, ákváðu, fyrst bænda hér á landi, að fjárfesta í þessum tölvubúnaði. „Ég hef nú alltaf lagt mikið upp úr ræktun og viljað hafa hlutina á hreinu. Svo er þetta bara upp á öryggið og tímann, að komast yfir allt saman á réttum tíma og gert hlutina rétt. Hafa hlutina á hreinu,“ segir Jóhannes í samtali við RÚV.
Þannig segir hann hægt að fylgja nákvæmlega hverri kind frá fæðingu, allan ársins hring, á fengitíma, í sauðburði og sláturtíð. „Ég held að þetta geti í raun og veru létt manni öll störf rosalega mikið. Sumir eru kannski að eyða peningunum í fjórhjól og einhverjar græjur. Ég hef áhuga á ræktun og ég ákvað að fjárfesta í þessu, frekar en einhverjum öðrum græjum,“ sagði Jóhannes ennfremur í samtalinu við RÚV.