Tónleikarnir Græni salurinn verða að sjálfsögðu í aðalsalnum í Bifröst
Nú á föstudagskvöldið verða tvöföldu bítin tekin til kostanna um leið og skagfirskir tónlistargæðingar slá botninn í árið með spennandi tónleikum í Bifröst við Skagfirðingabrautina á Króknum. Og áheyrendur þurfa ekki að óttast að tónleikarnir fari fram í gamla Græna salnum undir Bifröstinni (eins og óvart var misritað í Jóladagskrá Sjónhornsins) því stuðið verður að sjálfsögðu í bíósalnum.
Feykir hafði samband við tónlistarséníið Ægi Ásbjörns, sem er ein af aðalsprautum tónleikanna sem kallaðir eru Græni salurinn, og reyndi að veiða upp úr honum upplýsingar um tónleikana. Einhverjir tónlistaráhugamenn muna eflaust eftir VSOT-tónleikunum sem hafa verið haldnir í Bifröst á Lummudögum og verður Græni salurinn með svipuðu sniði. Skagfirskir tónlistarmenn, bæði heimamenn og brottfluttir, munu láta ljós sín skína og alls kyns óvæntar samsetningar á hljómsveitum verða dregnar á svið.
Ægir tjáði Feyki að ungur harmonikkuleikari, Arnar Freyr, yrði að líkindum fyrstur á svið en meðal annarra sem dúkka upp verður hljómsveitin Græni salurinn sem leidd er af Rögga Valbergs, þá munu bassaleikarinn og tónlistardoktorinn Úlli Har og gítargúrúið Reynir Snær troða upp með sínum sveitum og síðast en ekki síst verður Hljómsveit Pilla Prakkó á fullu Me-Gasi.
Miklu fleiri verða á sviðinu í Bifröst, sumir afar óvæntir – aðrir alls ekki óvæntir – en allt í allt munu sennilega um sex sveitir/atriði stíga á stokk. Leynigestur verður á staðnum. Aðgangseyririnn er ekki að setja neinn á hliðina, aðeins 500 kjell. Herlegheitin hefjast kl. 20:30 föstudagskvöldið 29. desember. Nú er bara að mæta í góða skapinu og hafa gaman.
- - - - -
P.S. Beðist er velvirðingar á þessum leiðu mistökum í Sjónhorninu varðandi staðsetningu tónleikanna ;o)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.