Tvær hugmyndir úr Skagafirði meðal tíu bestu í Verksmiðjunni 2019
Nú hefur dómnefnd Verksmiðjunnar 2019 lokið störfum og valið tíu bestu hugmyndirnar úr þeim 30 sem komust í undanúrslitin. Þátttakendur fá áfram sérstaka aðstoð í Fab Lab smiðjum landsins við að útfæra hugmyndirnar sínar og útbúa flottar frumgerðir og verður sigurvegari valinn á lokaviðburði Verksmiðjunnar þann 22. maí í Listasafni Reykjavíkur. Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem hugmyndir og uppfinningar verða að veruleika. Tvær hugmyndanna koma úr Skagafirði.
Þeir Óskar Aron Stefánsson, Indriði Ægir Þórarinsson og Steinar Óli Sigfússon eru í 9. bekk Varmahlíðarskóla og þeir sendu inn Markarskráninga-appið. Það er lausnin við aldagömlu vandamáli sauðfjárbænda við að þekkja hin margvíslegu mörk á kindum og lömbum. Appið er forrit sem í gagnagrunni sínum geymir myndir, nöfn og allar þær fjölmörgu mismunandi samsetningar marka og bæjarmerkja. „Ef þú lendir í að hafa fundið utanaðkomandi kindur sem ekki hefur bæjarmark í eyra eða mark sem þér er ókunnug er hægt að fletta því upp í forritinu,“ segir í kynningunni þeirra félaga.
Sjá kynningu HÉR
Þær Hrafnhildur Ýr Helgadóttir, Íris Helga Aradóttir og Auður Bríet Rúnarsdóttir eru í 9. bekk Árskóla á Sauðárkróki og þær sendu inn Ljóslitafilmuna sem er þunn filma í glugga með ljósum sem auðvelt er að setja upp. Birtustigi og lit er stjórnað með fjarstýringu eða appi í símanum. Ljósin eru tengd Bluetooth. Þegar slökkt er á ljósunum er glugginn bara eins og venjulegur gluggi. Ljósin er hægt að nota við hinar ýmsu aðstæður, t.d. í partýum eða sem jólaseríur.
Sjá kynningu HÉR
Þeir félagar úr Varmahlíðarskóla áttu aðra hugmyd sem komst inn í 30 bestu hugmyndirnar og þrjár aðrar hugmyndir komu frá nemendum Árskóla. Sjá HÉR.
Upphaf Verksmiðjunnar má rekja til samstarfs nokkurra aðila sem settu verkefnið Kóðinn af stað árið 2017. Kóðinn er forritunarleikar fyrir krakka í 6. – 7.bekk þar sem krakkar tókust á við áskoranir sem tengdust tölvum, forritun, snjallsímum og fleiri forritunaráskoranir sem tengdust Micro:bit smátölvunni. Leikarnir fóru fram 2017 – 2018 og framleiddi RÚV sjónvarpsþætti sem fjölluðu um málefnið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.