Tveir af Norðurlandi vestra hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings

Nú fer að styttast í að framboðsfrestur til stjórnlagaþings renni út en á hádegi nk. mánudags skal fólk vera búið að tilkynna framboð sitt. Þann 3. nóvember munu svo formlega verða birt nöfn frambjóðenda en kosning fer fram þann 27. nóvember nk. Guðmundur Guðlaugsson fv. sveitarstjóri gefur kost á sér til þingsetu.

Fólk er hvatt til að gefa kost á sér til stjórnlagaþings og er ekki krafist að viðkomandi hafi neina sérþekkingu. Það liggur hins vegar í hlutarins eðli að þeir sem bjóða sig fram til þingsins hafi áhuga á stjórnskipun landsins og kynni sér málefnin sem snúa að henni.

Samkvæmt Wikipedia hefur Guðmundur Guðlaugsson fv. Sveitarstjóri svf. Skagafjarðar tilkynnt um framboð sem og Jón Pétur Líndal frá Holtastöðum í Langadal í Austur Húnavatnssýslu. Feykir hefur ekki fregnað af öðrum framboðum á Norðurlandi vestra.

Borgarafundur var haldinn á Sauðárkróki í upphafi viku þar sem fróðlegar upplýsingar komu fram um þingið, þjóðfundinn og annað er varðar þetta mál. SSNV sá um framkvæmd kynningarfundarins  í samstarfi við Stjórnlaganefnd og sendi Feykir Katrínu Maríu Andrésdóttur nokkrar spurningar.

Það komu fáir á borgarafund um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem haldinn var á Skr. um daginn. Telur þú að áhuginn sé almennt lítill á Norðurlandi vestra á fyrirhuguðu stjórnlagaþingi eða þessu máli almennt?

Ég held að það séu skiptar skoðanir á stjórnlagaþingi og framkvæmd þess, rétt eins og ýmsu öðru.  Hins vegar hafa flestir skoðanir á því hvernig landinu á að vera stjórnað og hvernig leikreglurnar skuli vera í samfélaginu.  Þess vegna sköpuðust mjög líflegar og fróðlegar umræður á kynningarfundinum, þó þar væri ekki sérlega fjölmennt. Nokkrir höfðu samband fyrir og eftir fundinn, ýmist til að láta vita að þeir kæmust ekki eða til að spyrja frétta að fundi loknum.  Einhverjir komu sérstaklega til fundarins til að kynna sér málin þar sem þeir hafa verið boðaðir á þjóðfundinn þann 6. nóvember nk. aðrir komu til að ræða málin í víðara samhengi.  Mér finnst ég merkja meiri áhuga á endurskoðun stjórnarskrárinnar en fundarsóknin á kynningarfundinn gaf til kynna.

Kom eitthvað fram á borgarafundinum sem átti sérstaklega við íbúa Norðurland vestra gagnvart stjórnlagaþinginu?

Almennt var farið vel yfir hvernig vinnuferlið við endurskoðun stjórnarskrárinnar og kosningar til stjórnlagaþingsins ganga fyrir sig.

Fundarmenn ræddu mikilvægi þess að sem flest sjónarmið ættu sér rödd á þjóðfundi og stjórnlagaþingi.  Athygli vekur að við úrtak þeirra sem boðið er á þjóðfund er gætt jafnvægis í fulltrúafjölda, bæði varðandi kynjahlutföll og búsetudreifingu. Hins vegar eru ekki settar neinar skorður varðandi búsetudreifingu vegna stjórnlagaþingsins þó þar séu ákvæði um kynjajöfnuð. 

Framsögumenn, Ágúst Þór Árnason og Aðalheiður Ámundadóttir sem bæði eiga sæti í stjórnlaganefndinni, komu inn á margt fróðlegt í erindum sínum.  Meðal annars nefndi Ágúst að hvergi í vestrænum ríkjum býr jafnhátt hlutfall landsmanna á og við höfuðborgarsvæðið og hér á Íslandi.  Velta má því upp hvort það kalli á einhver sérstök ákvæði varðandi stjórnskipum.

Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010 skal stjórnlagaþing sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti:

  • 1.         Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
  • 2.         Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
  • 3.         Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
  • 4.         Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
  • 5.         Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
  • 6.         Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnskipunarlaga.
  • 7.         Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
  • 8.         Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti ef það kýs svo.

Allt eru þetta mál sem varða íbúa á Norðurlandi vestra til jafns við aðra landsmenn.

Telur þú hættu á því að þjóðin skiptist í fylkingar þegar stjórnarskráin verður endurskoðuð m.t.t. pólitískra flokkadrátta, búsetu eða að öðru leyti?

Það er mikilvægt að sem flest sjónarmið eigi sér rödd á stjórnlagaþinginu og að Alþingi leggi áherslu á vandaða vinnu í framhaldinu, þegar að því kemur að leggja nýja stjórnarskrá í dóm þjóðarinnar.

Ég vona og trúi því að menn muni umgangast þetta verkefni af virðingu og fara gætilega með stjórnarskrána. Mörgum finnst að hún muni standa fyrir sínu, lítið breytt. Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að það sem á hefur gengið á Íslandi síðustu árin og misserin eigi kannski minnst rætur að rekja til stjórnarskrárinnar. Endurskoðun á stjórnarskránni núna er kannski svolítið eins og að vilja breyta Faðirvorinu, bara af því að maður hefur ekki verið bænheyrður.

Nánari upplýsingar má fá á vefsíðunni:  http://www.stjornlagathing.is/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir