Tveir stórleikir á Króknum í dag
Það er stór dagur í íþróttalífinu á Sauðárkróki í dag. Fyrst taka Stólastúlkur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deild kvenna í knattspyrnu og í kvöld fer fyrsta viðureignin fram í úrslitaeinvígi Tindastóls og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.
Fjórum umferðum er lokið í Bestu deild kvenna og hafa Stólastúlkur unnið einn leik, þann fyrsta, en tapað síðustu þremur leikjum með eins marks mun og mega vera hundsvekktar með það því þær hafa sannarlega verðskuldað meira. Í fyrra marði lið Blika 0-1 sigur á Króknum þar sem Tindastólsliðið átti skínandi leik, Þær munu eflaust gefa sig allar í leikinn sem hefst kl. 16:30.
Körfuboltinn hefst svo í Síkinu kl. 20:15 en tjaldið verður opnað kl. 17:15 og stemningin rifin í gang. Hægt verður að næla sér í hamborgara, drykki og það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi í Tindastólsbúðinni. Auddi Blö og Sæþór Már keyra svo upp stuðið. Húsið verður síðan opnað 18:45 eða góðum einum og hálfum tíma fyrir leik.
Reikna má með æsilegu einvígi þessara tveggja liða sem hafa verið bestu liðin í vetur og enduðu í tveimur efstu sætunum. Stólarnir þó skrefinu á undan og urðu deildarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins. Heimavallarétturinn er því okkar þannig að ef að til oddaleiks kemur þá verður hann á Króknum – það er bara þannig. Bæði lið eru vel mönnuð og með mikla breidd og bæði vilja spila hraðan körfubolta og grjótharðan varnarleik.
Munum að styðja okkar lið fallega og með jákæðni og gleði að leiðarljósi – bæði á fótbolta- og körfuboltavellinum. Áfram Tindastóll!