Tvöfaldur regnbogi við Blönduós

Tvöfaldur regnbogi yfir Blönduósbæ. Myndir: Róbert Daníel Jónsson
Tvöfaldur regnbogi yfir Blönduósbæ. Myndir: Róbert Daníel Jónsson

23. júní síðastliðinn mátti sjá tvöfaldan regnboga við Blönduós. Áhugaljósmyndarinn Róbert Daníel Jónsson tók þessar stórkostlegu myndir af þessari sjaldséðu litaveislu er verður þegar sólarljósið skín á vætu í andrúmslofti jarðar. Sagan á bak við myndatökuna er ekki síður sjaldgæf þar sem Róbert var á inniskóm og nærbuxum þar sem hann gaf sér ekki tíma til þess að klæða sig áður en hann fór út að taka myndirnar.

Regnbogar af þessu tagi eru heldur sjaldgæf sjón og oft þarf að bregðast hratt við til þess að fanga augnablikið. Það var einmitt reyndin að þessu sinni og er sagan á bak við myndatökuna heldur óvenjuleg. Á facebooksíðu Róberts segir hann frá því að hann var nýkominn úr Kayak-róðri á Hólmavatni og hafði farið úr blautum fötum í þurrt en hafði ekki klárað að klæða sig er hann fékk ábendingu um regnbogann. Taldi hann mikilvægt að drífa sig út og ná myndum og henti sér því í inniskó og rauk út í bíl. Var hann lagður af stað er hann áttaði sig á því að hann væri enn á nærbuxunum. Taldi hann ekki tíma til þess að fara til baka í buxur og fór því út um allan bæ á naríunum og myndaði regnbogann sem var þó nokkuð lengi á loft og hefði hann alveg getað gefið sér tíma til að troða sér í buxur, að hans sögn.

Ákveðin veðurskilyrði þarf til þess að sjá tvöfaldan regnboga. Því lægra sem sólin er á lofti því hærri er regnboginn. Það sem er svo sérstakt við tvöfaldan regnboga er að ytri boginn er í öfugri litaröð og er alltaf mun daufari en innri boginn. Nánar má lesa um regnboga á vef veðurstofunnar.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir