Um heilbrigðisþjónustu í Skagafirði
Í næstsíðasta tölublaði Feykis, 10. september sl. vöktu athygli frétt af bókun byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar og grein eftir Bjarna Jónsson sveitastjórnarfulltrúa VG og óháðra. Í báðum þessum skrifum er fullyrt að verið sé að skerða heilbrigðisþjónustu í Skagafirði.
Sama dag og blaðið kom út hafði undirritaður setið fund byggðaráðs ásamt forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN). Á fundinum sem var hinn ágætasti var m.a. ofannefnd bókun til umræðu. Þar voru mál rædd og útskýrð og kom fram að ráðið gerði ekki athugasemdir við þjónustuna. Enda hefur þjónustan ekkert breyst frá því að ný stofnun varð til með sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.
Þrátt fyrir þetta birtast íbúum héraðsins þessar fullyrðingar á síðum Feykis og þar sem þær hafa ekki verið leiðréttar opinberlega og ekki í síðasta tölublaði Feykis af þeim sem settu þær fram tel ég mér skylt að gera það. Fram kom einnig, bæði í blaðinu og á fundinum, að sveitastjórnarmenn hafa áhyggjur af fækkun starfa á stofnuninni og á svæðinu öllu og get ég deilt þeim áhyggjum með þeim. Það var hins vegar ljóst þegar stefnt var að sameiningu að einhver störf myndu hverfa t.d. var öllum sex forstjórum gömlu stofnananna sagt upp. Hin nýja stofnun er í raun enn í mótun og á sjálfsagt eftir að að koma betur í ljós hver niðurstaðan verður í mannahaldi. Forsendur og kröfur breytast sífellt og leitin að bestu niðurstöðu í rekstri heilbrigðisstofnana er endalaus, rétt eins og á við um sveitarfélög.
Það er mjög ámælisvert að sveitastjórnarmenn komi fram með þær rangfærslur að heilbrigðisþjónusta í héraðinu hafi verið skert. Slíkt er einungis til þess fallið að skapa áhyggjur og óöryggi íbúa og klárlega ekki hvetjandi fyrir þá sem hafa í hyggju að flytjast hingað og setjast hér að. Í þessum skrifum öllum er ekki tekið eitt einasta dæmi um skerta þjónustu enda er það ekki til. Í sama tölublaði Feykis og umræddir pistlar birtust var fjallað um úttekt sem gerð var á búsetuskilyrðum í Skagafirði. Eru þessi skrif afleitt innlegg í þá umræðu.
Það voru mjög skiptar skoðanir um ágæti sameininga heilbrigðisstofnana. Heilbrigðisyfirvöld höfðu þó stefnt að þessu um árabil og margir ráðherrar úr ólíkum stjórnmálaflokkum komið að því máli og þótt ákvörðuninni hafi um tíma verið frestað eða ýtt til hliðar var sameining í einhverju formi alltaf yfirvofandi. Hvernig að henni var svo staðið er annað álitamál. Þeir eru margir fundirnir og mörg símtölin, samtölin og tölvupóstarnir sem undirritaður hefur átt síðustu ár við ráðherra, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og ráðuneytisfólk út af sameiningarmálum. Það má segja sveitastjórnarmönnum í Skagafirði til hróss, hvar í flokki sem þeir standa, að þeir lögðu mikið á sig og beittu sér sameinaðir mjög til þess að styðja heilbrigðisþjónustuna í Skagafirði og tel ég að það hafi borið ákveðinn árangur. En niðurstaðan var þessi sameining hvort sem okkur líkar betur eða verr og markmiðið hlýtur að vera að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
Eftir að sameiningin varð að veruleika hefur ekki einn einasti þingmaður eða sveitastjórnarmaður haft samband við undirritaðan og velt fyrir sér hvernig gangi sem er svolítið undarlegt í ljósi þess hamagangs sem á undan gekk. Á sama hátt er mér ekki kunnugt um að leitað væri frétta hjá yfirstjórnendum stofnunarinnar hér á Sauðárkróki. Það eru því vonbrigði þegar órökstuddar fullyrðingar og rangfærslur eru settar fram í fjölmiðli eins og hér var gert. Það hefði mátt á einfaldan hátt hafa samband og fá málið útskýrt. Það er einnig rétt að benda á að það hefur enginn fjölmiðill leitað frétta. Það eru líka vonbrigði en einnig mjög gagnrýnivert að fjölmiðill eins og Feykir, sem kallar sig frétta- og dægurmálablað, skuli birta þá frétt og grein sem hér um ræðir án þess að leita álits þess sem gagnrýnin beinist að eða þá að skoða og greina hvað verið er að gagnrýna. Heilbrigðisþjónusta skiptir miklu máli fyrir íbúa og í hæsta máta undarlegt að fjalla ekki betur um þessar alvarlegu fullyrðingar sveitastjórnarmanna á síðum blaðsins. Á hinn bóginn greinir blaðið frá því hvað sveitastjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar myndi hafa með sér ætti hann að dvelja aleinn á eyðieyju. En það er blaðamannsins að meta hvað er fréttnæmt og hvað ekki.
Breyting á símsvörun vaktlækna sem um er rætt í áðurnefndum skrifum og áður var auglýst í Feyki og Sjónhorni er verkefni sem heilbrigðisyfirvöld hafa unnið að m.a. að skandinavískri fyrirmynd frá því löngu áður en til sameiningar á Norðurlandi kom. Þarna er um að ræða símsvörun fyrir allt landið sem verið er að hrinda í framkvæmd um þessar mundir. Engin breyting er á þjónustu, þeir sem þess þurfa fá samband við vaktlækni, og engin breytin er á stöðugildum hér vegna þessa.
Gagnrýni Bjarna Jónssonar í grein sinni er talsvert hvassari en fram kemur hjá byggðaráði. Hann talar um að verið sé „... að méla niður það góða starf og þjónustu sem byggt var upp á áratugum við Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki“ og segir „Miklar breytingar hafa verið gerðar á heilbrigðisþjónustu síðustu misseri...“ og „... öll stjórn mála færð endanlega burtu úr héraði“. Ekkert af þessu stenst skoðun og er Bjarna ekki til sóma. Ég hirði ekki um að ræða þau atriði frekar enda tilgangur þess að stungið var niður penna fyrst og fremst að upplýsa skagfirðinga um að þjónusta við íbúa hefur ekki breyst. Bjarni gefur í skyn að það sé komin þreyta í sveitastjórnarfólk og get ég svo sem vel skilið það. Þeirra erilsama starf er ekki auðvelt. En þá er líka mikilvægt að fjalla um það sem máli skiptir en velta sér ekki upp úr einhverri vitleysu, vanda vinnubrögðin og kynna sér hlutina vel áður en af stað er farið. Í staðinn fyrir að eyða tíma í að pirra sig og ergja og skrifa þennan greinarstúf hefði Bjarni Jónsson t.d. með stuttu símtali getað fengið skýr svör og útskýringar og átt þá dýrmæta stund til að halla sér og hvílast og mætt svo tvíelfdur og úthvíldur til leiks fyrir sveitarfélagið.
Örn Ragnarsson
Framkvæmdastjóri lækninga
Heilbrigðisstofnun Norðurlands
[Greinin var birt í Feyki þann 24. september 2015.]
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.