Um veðurboða - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Útskorinn hrafn (BSk 2018:15) gætir gamla bæjarins í Glaumbæ. Hrafninn var skorin út og gefinn til safnsins af Vestur-Íslendingnum Einari Vigfússyni. Amma Einars og langamma voru fjósakonur í Glaumbæ á 19. öld. Krummi þessi er nú orðvar þegar kemur að veðurspádómum.
Útskorinn hrafn (BSk 2018:15) gætir gamla bæjarins í Glaumbæ. Hrafninn var skorin út og gefinn til safnsins af Vestur-Íslendingnum Einari Vigfússyni. Amma Einars og langamma voru fjósakonur í Glaumbæ á 19. öld. Krummi þessi er nú orðvar þegar kemur að veðurspádómum.

Í morgun leit ég yfir veðurspá næstu viku, sem varla er í frásögu færandi, en fór í kjölfarið að velta fyrir mér hvernig fólk spáði fyrir um veður fyrir tíma veðurfrétta. Eftir umhleypingasamar vikur vitum við hvað það getur verið þægilegt og jafnvel nauðsynlegt að vita á hvaða veðri er von.

Við erum gjörn á að tengja atburði og skapa úr þeim einhverskonar flæði þar sem eitt leiðir af öðru. Við klæðumst ákveðnum sokkum og uppáhalds íþróttaliðið okkar vinnur. Af því leiðir að við verðum að klæðast þessum ákveðnu sokkum næst þegar liðið spilar því nú eru þeir orðnir happaklæði. Veðurspá fyrri alda var að sumu leyti lík þessum þankagangi. Ef veður er svona þennan daginn, þá verður það svona í framhaldinu. Ef dýrin haga sér á ákveðinn hátt í þessu veðri, þá hlýtur sama hegðun að vera forspá næst.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir í bókinni Íslenskir þjóðhættir að stórviðri á nýársdag boði mikla storma, og „[e]ftir veðri á Knútsdag (7. jan.) á að viðra eftir vertíð á vorin.“[1] Góðir veðurdagar fyrst og síðast í janúarmánuði þóttu jafnframt góðs viti fyrir veturinn. Eftir veðri á Pálsmessu, 25. janúar, viðrar í aprílmánuði, sólskin boðaði þá frjósamt ár en dögg þykkviðri og snjókomu. Þoka boðaði margvíslegan gróða, en votviðri kallaði á votviðrasamt sumar og haust.[2]

Veðurbrigði mátti ennfremur lesa úr hegðun dýra, sem þóttu næm fyrir breytingum í umhverfinu. Þvægi heimiliskötturinn sér upp fyrir hægra eyra á vetrardag var hláka í nánd. Teygði hann sig og hleypti klónum fram, og ef gamlir kettir léku sér, gat stormur verið í vændum. Ef kettir rifu tré, þ.e.a.s. brýndu klærnar á timbri boðaði það stórhríð að vetri en hrakviðri á sumri.[3]

Hegðun fugla gat verið vísbending um veðrið, ekki síður en heimilisdýranna. Ef rjúpur leituðu til byggða á haustin mátti búast við leiðindaveðri, sem og ef þær voru styggar og ólmar að tína.[4] Lómurinn þótti sérstaklega málgur varðandi veður og ákveðin hljóð höfðu þá sérstaka meiningu. Þegar hann gaggaði „þurrka traf“ vissi á þurrk, en hann vældi „marvott“ ef von var á vætu.[5] Krummi var talinn veðurglöggur og þegar bomsaði einkennilega í honum í votviðri var von á þurrki (sumstaðar var sagt að þá væri þerrihljóð í krumma), en ef gutlaði í krumma („ber vatn í nefinu) var von á votviðri.[6] Hegðun hrafna á flugi gat sagt til um veður. Þá þurfti að taka eftir úr hvaða átt þeir flugu, hvort þeir sneru að manni nefi eða stéli og hvernig þeir höguðu sér í nágrenni við heimilin.[7]

Veður mátti stundum lesa úr tunglgangi og vikudögum: „Þá er nú ekki sama, á hvaða dag tungl kviknar. Þannig trúa því ýmsir, að mánudagatungl og þriðjudagatungl, einkum mánudagatungl, verði annaðhvort verstu eða beztu tungl […]. Sjaldan átti að bregðast bloti á mánudagstungli […]. Þá hefir og verið sagt, að oftast viðri hvert tungl eftir því, sem viðrað hefir næsta fimmtudag á undan því, er það kviknaði, og næsta mánudag á eftir. Það hlýtur að eiga við tungl, sem kviknar milli fimmtudags og mánudags.“[8]

Ljóst er að það var mikil list og að mörgu að hyggja þegar kom að lestri veðurs í náttúru og umhverfi. Nánar má lesa um veðurboða í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga XXIV Blikur á lofti: Gamlir veðurboðar og veðurorð. Ritið má finna í safnbúðinni okkar í Gilsstofu og á heimasíðu safnsins. 

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2020


[1] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 132.
[2] Sama heimild. Bls. 132.
[3] Sama heimild. Bls. 141.
[4] Sama heimild. Bls. 141.
[5] Sama heimild. Bls. 142.
[6] Sama heimild. Bls. 143.
[7] Sigríður Sigurðardóttir. Blikur á lofti: Gamlir veðurboðar og veðurorð (2018). Smárit Byggðasafns Skagfirðinga XXVI. Bls. 9.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir