Undirbúningur á fullu fyrir komu flóttamanna til Hvammstanga

Þann 14. maí munu 23 sýrlenskir flóttamenn koma til Hvammstanga. Er hér um að ræða fimm fjölskyldur sem hafa dvalið í Líbanon í 3-5 ár. Fólkið er á aldrinum eins árs til 38 ára og eru fimm barnanna sem tilheyra hópnum fædd í Líbanon. Sveitarfélagið hefur nú gefið út dreifibréf með hagnýtum upplýsingum varðandi móttöku fólksins og þætti eins og venjur, trúarbrögð, skólagöngu og menntun, starfsfólk sem stýrir móttökunni og fleira. Fréttabréfið er aðgengilegt hér á vef Húnaþings vestra.

Meðal þess sem kemur fram í bréfinu er að allar fölskyldurnar hafi fengið ný heimili á Hvammstanga. Aldur foreldranna er á bilinu 20 - 39 ára og eru börnin á aldrinum eins árs til 10 ára. Fjölskyldurnar sem koma eru allar súnni múslimar og fylgja flestir siðum heimahaganna, konur og stúlkur eru með slæður (hijab) og gjarnan í síðum kápum (manto). Bent er á að venjur og hefðir eru í mörgu tilliti frábrugðnar því sem við þekkjum og sem dæmi má nefna að ekki er sjálfsagt að allir heilsist með handabandi, sérstaklega ekki milli kynja.

Til að byrja með verða stuðningsfjölskyldur og starfsfólk sveitarfélagsins mikilvægustu aðstoðarmenn fölskyldnanna. Fljótlega eftir komuna verður sameiginleg fræðsla fyrir börn og fullorðna og í sumar verður skipulagt starf og nám fyrir fólkið með áherslu á íslenskukennslu. Næsta haust fara nemendur svo í grunn- og leikskóla og áfram verður markviss kennsla fyrir fullorðna í íslensku- og samfélagsfræðslu. Íbúum staðarins er bent á að þeir gegna veigamiklu hlutverki í móttökunni með vingjanlegu viðmóti og þolinmæði þegar nýir íbúar taka fyrstu skrefin í íslenskunni og er fólki bent á að nota íslensku í samskiptum og forðast að grípa til enskunnar ef nýbúar nota hana ekki sjálfir.

Húnaþing vestra stýrir mótökunni í samvinnu við Rauða krossinn og er Liljana Milenkoska verkefnastjóri Húnaþings vestra en Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er verkefnastjóri á vegum Rauða krossins. Túlkur verður ráðinn til starfa og mun hann hafa aðsetur á Hvammstanga ásamt því sem fleiri munu koma formlega að verkefninu.

Í niðurlagi bréfsins segir Liljana Milenkoska: „Okkar markmið er að stuðla að framúrskarandi móttöku í Húnaþingi vestra, í samvinnu við Rauða krossinn og almenning sem hefur svo sannarlega komið sterkt inn í undirbúningnum. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir jákvæðnina, hjálpina og trúna á okkur sem erum að vinna að móttökunni.“

Fleiri fréttir