Unglingaflokkur Tindastóls sló KR út
Drengirnir í unglingaflokki Tindastóls gerðu sér lítið fyrir í gærkvöldi og slógu út lið KR í átta liða úrslitum Íslandsmótsins en leikið var í Síkinu á Króknum. Þegar upp var staðið eftir æsispennandi leik reyndust lokatölur 105-100.
Á heimasíðu Tindastóls segir að jafnræði hafi verið með liðunum lengst af en Tindastóll þó aðeins yfir allan leikinn. Staðan var 28-21 eftir fyrsta leikhluta en í hálfleik voru Stólarnir með níu stiga forystu, 58-49. Sami munur var að loknum þriðja leikhluta, 85-76, en í fjórða leikhluta þjörmuðu KR-ingar verulega að Tindastólsstrákunum og þegar tvær mínútur lifðu af leiknum höfðu þeir minnkað muninn í aðeins tvö stig, 97-95. Tindastólsstrákarnir héldu hins vegar út og unnu 105-100. Ingvi Rafn Ingvarsson og Pétur Rúnar Birgisson var atkvæðamestir í liði Stólanna með 28 og 24 stig.
Drengirnir eru því komnir í undanúrslit Íslandsmótsins og þar leika þeir gegn sameinuðu liði Skallagríms og Snæfells og verður leikið í Hólminum í næstu viku.
Stig Tindastóls: Ingvi með 28 stig, Pétur með 24, Þröstur 14, Sigurður Páll 11, Friðrik Stefáns 11, Hannes 9 og Viðar 8.