Uppbygging skólamannvirkja fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð

Aðkoma að leikskóla í Varmahlíð eins og tillaga að breytingu skólamannvirkja gerir ráð fyrir. Myndir af tillögu VA Arkitekta.
Aðkoma að leikskóla í Varmahlíð eins og tillaga að breytingu skólamannvirkja gerir ráð fyrir. Myndir af tillögu VA Arkitekta.

Tillögur VA Arkitekta að breytingum á Varmahlíðaskóla og samþættingu skólanna þriggja, leik-, grunn- og tónlistarskóla, á sama stað hafa verið opinberaðar á heimasíðu Svf. Skagafjarðar en í lok árs 2019 var sett fram sameiginleg viljayfirlýsing sveitarfélaganna í Skagafirði þar sem samþykkt var að stefna að þeirri uppbyggingu og verkefnisstjórn skipuð um framkvæmdina.

Markmiðið er að þær breytingar sem gerðar verða á húsnæðinu og umhverfi þess uppfylli þarfir og kröfur sem gerðar eru í dag til skólahalds leik-, grunn- og tónlistarskóla. Á Skagafjörður.is segir að við undirbúning verkefnisins hafi verið stuðst við svokallað „Design Down Process“ sem á íslensku mætti kalla undirbúningsferli hönnunar, frá hinu almenna til hins sérstæða og voru VA Arkitektar fengnir til að stýra þessu samráðsferli.

„Var ákveðið að boða til samráðsfunda með íbúum Skagafjarðar og Akrahrepps til að ná fram sjónarmiðum sem flestra við gerð þarfagreiningar skólanna og umhverfi þeirra. Markmið þessarar undirbúningsvinnu var að safna og greina þarfir og óskir nemenda, starfsmanna, foreldra og annarra íbúa, auk þeirra sem sækja þjónustu á svæðinu.

Einnig var lögð áhersla á að skoða nánar hvernig má nýta húsnæðið fyrir samfélagið í heild sinni. Í því samhengi hefur verið nefnt námskeiðahald og félagsstarf þar sem aðstaða skólans kemur að notum eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur og opna þannig húsnæði skólanna fyrir nærsamfélagið og leitast við að skapa sameiginlegan vettvang fólks á öllum aldri til að sinna áhugamálum og félagsstarfi.
Við sjálfa hönnunina var svo eftir því sem unnt var komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu í samráðsferlinu. Markmiðið var að skapa hagnýtt námsumhverfi sem er í senn örvandi fyrir nemendur og starfsfólk en hefur líka möguleika á því að verða grunnur að „hjarta“ samfélagsins í sveitarfélaginu,“ segir í frétt sveitarfélagsins.

Nánar  HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir