Úrslit í samkeppni um listskreytingu í hús Byggðastofnunar

Mynd: byggdastofnun.is
Mynd: byggdastofnun.is

Nýverið var tilkynnt um niðurstöðu dómnefndar í samkeppni um listskreytingu í nýbyggingu Byggðastofnunar á Sauðárkróki. Samkeppnin, sem var framkvæmdasamkeppni, var haldin í samvinnu við Samband íslenskra myndlistarmanna. Umsjón með samkeppninni fyrir hönd Byggðastofnunar hafði Framkvæmdasýsla ríkisins. Var þremur myndlistarmönnum boðin þátttaka og skiluðu allir inn tillögu.

Dómnefndin valdi verk Rósu Gísladóttur, Eldflaugin og demanturinn sigurvegara. Í umsögn dómnefndar segir:
„Verkin Eldflaugin og Demanturinn eru áhrifarík og fagurfræðilega áhugaverð í rýminu. Hugmyndin er heildstæð og tengist starfsemi Byggðastofnunar með skemmtilegri vísun í ferðalag og framþróun sem Eldflaugin táknar og áfangastað slíks ferðalags sem demanturinn táknar. Verkin eru þrívíð og fjörug og taka á móti þeim sem inn í rýmið koma með form- og litagleði. Þau vekja áhuga, athygli og forvitni.“

Dómnefndina skipuðu:
Árni Ragnarsson, arkitekt, tilnefndur af Byggðastofnun, formaður dómnefndar, Ásdís Spanó myndlistarmaður, tilnefnd af SÍM, Baldur Ó Svavarsson, arkitekt nýbyggingar Byggðastofnunar, tilnefndur af Byggðastofnun. Ritari dómnefndar og verkefnastjóri var Sunna Dóra Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. 

Umsögn dómnefndar má sjá hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir