Úrslit Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga

Meðal þess sem hagyrðingar fengu að glíma við var að botna fyrri parta er minntust á gos, gös. Mynd af streymi RÚV frá gosstöðum í Geldingadal.
Meðal þess sem hagyrðingar fengu að glíma við var að botna fyrri parta er minntust á gos, gös. Mynd af streymi RÚV frá gosstöðum í Geldingadal.

Úrslit vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga hafa verið kunngjörð en á heimasíðu Sæluviku er hægt að sjá útsendingu á heimasíðu Sæluviku þar sem tíndir eru til nokkrir botnar og vísur er bárust í keppnina. Skarphéðinn Ásbjörnsson sendi inn verðlaunabotn og Sigurlín Hermannsdóttir átti vísuna sem hlaut fyrstu verðlaun.

Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga hefur fest sig rækilega í sessi á Sæluviku en keppninni var komið á árið 1976. Ekki veit umsjónarmaður hennar til þess að keppnin hafi fallið niður á þeim tíma, utan síðasta ár þegar Sæluvika varð að víkja fyrir Cóvid-reglum sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra. Telst honum þá til að nú sé komið að keppni númer 45.

Reglurnar eru líkt og áður, einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni. Að þessu sinni fengu hagyrðingar að glíma við að botna fyrri parta er minntust á gos, gös, Covid-áhrif, kaup og kjör og kosningar og að sjálfsögðu um vorið, enda stutt í betri tíð er keppnin hófst.

Þá langaði umsjónarmanni keppninnar til að sjá hvernig hagyrðingar myndu ramma inn Ísland og þeirra upplifun á stöðunni í dag, sl. mánuði eða jafnvel hvernig þeir telja hana þróast næstu mánuði en þó að Covid-19 hafi verið alls ráðandi mátti alveg hugsa út fyrir þann ramma.

Þátttaka var þokkaleg þar sem tólf einstaklingar sendu inn efni undir dulnefni og líkt og áður mátti vart á milli sjá hvaða botn eða vísa ætti heima í verðlaunasæti. Enginn miskunn er þó gefin og úrslit skulu fara fram með góðu eða illu.

Skarphéðinn Ásbjörnsson sendi inn verðlaunabotninn að þessu sinni er hann botnar:

Senn mun blíð og betri tíð
bara prýða fjörðinn.
Vindar líða um völl og hlíð
og vorið þíða svörðinn.

Ekki var einfalt að skera úr um það hver ætti skilið að hljóta verðlaun úr hvorum flokki enda aldrei auðvelt að keppa í vísnagerð. En allt er þetta gert til gamans þó örlítil alvara fái að fylgja með. Vísan sem varð fyrir valinu á vel við núna þegar við sjáum fyrir endann á Covid-19 og fáum brátt að hittast á mannfögnuðum á ný án gríma og sótthreinsivökva.

Er kóvíd hörvar kemur betri tími
við kveðjum einsemd, grímur, hanska og spritt.
Þótt enn við kvíðann kannski ennþá glími
við knúsum, ferðumst og gerum líka hitt.

Verðlaunavísuna átti Heiðarbúi eða Sigurlín Hermannsdóttir úr Kópavoginum.
Verðlaunahafar fá hamingjuóskir og þakkir fá öll þau sem þátt tóku.

Nánar verður sagt frá botnum og vísum í næsta Feyki og að sjálfsögðu hægt að horfa á útsendingu á Sæluviku.is þar sem farið er yfir innsenda botna og vísur.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir