Út úr kreppunni

Gunnar Bragi Sveinsson

Það er enginn sem kemur og bjargar okkur útúr kreppunni. Eina leiðin sem við eigum er að vinna okkur útúr henni sjálf. Ríkisvaldinu ber að skapa aðstæður fyrir einstaklinga og fyrirtæki svo atvinnulífið komist á skrið og heimilin í skjól frá þeim efnahagsstormi sem nú geisar.  Núverandi ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að bregðast við eftirá m.a. með því að lengja í skuldasnöru heimilanna og setja eins marga á bætur og þörf er á. Þetta er hættuleg leið sem draga mun frumkvæði og þrótt úr fólki og fyrirtækjum.

 

Er ekki mikilvægara að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir svo ekki komi til gjaldþrota heimila og fyrirtækja? Fram hafa komið tillögur sem taka á þessu. Sú tillaga sem mestu skiptir snýr að leiðréttingu á verðtryggingunni þ.e. að færa skuldir heimila og fyrirtækja aftur í það sem þær voru í byrjun árs 2008.

Þetta er leið sem hægt er fara  strax og mun þannig gagnast heimilum og fyrirtækjum strax. Áhrifin verða þau að færri verða gjaldþrota og þeir sem eiga afgang nota hann til kaupa á vörum og þjónustu sem styrkir fyrirtækin, sem þannig geta þá ráðið fleiri í vinnu. Þannig kemst á keðjuverkun sem samfélagið hagnast á.

Sú leið sem ríkisstjórnin vill fara þ.e. að velja úr þá sem á að hjálpa tekur of langan tíma og er því miður farvegur spillingar, þar sem t.d. flokkskírteini gætu ráðið för. Fleiri og fleiri fræðimenn telja að eina raunhæfa leiðin sé almenn leiðrétting skulda er taki gildi strax.

Hver borgar brúsann? Þeir sem tapa á þessari aðferð eru þeir erlendu kröfuhafar sem lánuðu fé til Íslands og því eru það þeir sem borga. Þeir gera sér nú þegar grein fyrir því að stærstur hluti þess sem þeir lánuðu er nú þegar tapaður. Nú þegar er búið að afskrifa allt að 50% af kröfum þessara aðila og var það gert þegar nýju bankarnir voru stofnaðir. Því er það sanngirnismál að ríkisstjórnin láti amk. hluta af þessari afskrift ganga til heimila og fyrirtækja í stað þess að láta bankana njóta þess eina.

Það að leiðrétta lán heimila og fyrirtækja sem nemur verðbótum á einu ári, uþb. 20%, kostar ríkissjóð ekki neitt ! Erlendu kröfuhafarnir bera skaðann.

Verði þessi leið farin mun stór hluti heimila og fyrirtækja sleppa við gjaldþrot. Þá mun velta í samfélaginu aukast og atvinna um leið. Forsenda þess að þjóðin komist útúr kreppunni er að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot þannig að fyrirtækin gangi, geti ráðið fólk til vinnu og það haldið heimilum sínum.

Förum leið skynseminnar, eflum atvinnu og björgum heimilunum strax.

Gunnar Bragi Sveinsson

Höfudur skipar 1.sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir