Útgáfuhátíð í Ljósheimum

Útgáfuhátíð verður haldin félagsheimilinu Ljósheimum í Skagafirði kl. 20.30 næstkomandi miðvikudag, 10. nóvember. Tilefnið er útkoma nýrrar bókar hjá JPV útgáfu eftir Steinunni Jóhannesdóttur, höfund metsölubókarinnar Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Bókin nefnist Heimanfylgja og er skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar, byggð á heimildum um ættfólk hans og samtíð í Skagafirði.

Í þessari þroska- og átakasögu, sem gerist á miklum umbrotatímum, leiðir Steinunn fram fjölda stórbrotinna og áhugaverðra einstaklinga, bæði sögulegar persónur og skáldaðar, sem forvitnilegt er fyrir Skagfirðinga að kynnast.

Á kvölddagskránni í Ljósheimum kynnir höfundur atkvæðamestu sögupersónurnar og Kammerkór Skagafjarðar syngur lög við ljóð Hallgríms. Þá les Sigríður Kristín Jónsdóttir kafla úr bókinni. Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, stjórnar útgáfuhátíðinni í Ljósheimum.

Kaffiveitingar og áritanir verða að dagskrá lokinni.

Fleiri fréttir