Útivistarskýli í Sauðárgili - Ásýnd svæðisins með skírskotun í skagfirska sögu

Þrívíddarteikning af skýlinu, Teiknistofa Norðurlands.
Þrívíddarteikning af skýlinu, Teiknistofa Norðurlands.

 Í nóvember voru lagðar fyrir umhverfis- og samgöngunefnd endanlegar teikningar af útivistarskýli í Sauðárgili á Sauðárkróki en undanfarin ár hefur nokkuð verið kallað eftir uppbyggingu á aðstöðu og afþreyingu þar og í Litla-Skógi sem staðsettur er ofar í gilinu. Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp í því samhengi og m.a. skoðuð uppbygging á aðstöðu í lundi neðarlega í gilinu.

Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs, voru frumdrög að þeirri hugmynd unnin árið 2017 og er þar gert ráð fyrir útivistarskýli, litlu leiksvæði, grillaðstöðu og sviði. Staðsetning svæðisins er m.a. valin með það í huga að gott aðgengi verði að því. Umhverfis- og samgöngunefnd Sveitarfélagsins hefur haft málið til umfjöllunar frá upphafi og fylgt því eftir.

Staðsetning skýlisins í Sauðárgili.

Staðsetning skýlisins í Sauðárgili.

Ákveðið var að hefja vinnu við hönnun á útivistarskýlinu sem fyrsta áfanga uppbyggingar á þessu svæði og hófst sú vinna árið 2018. Stefnt er að því að halda áfram uppbyggingu á svæðinu á næstu árum.
Indriði segir að gert sé ráð fyrir að allt að 40 gestir geti notað skýlið samtímis. Skýlið er opið og er tyrft þakið borið uppi af timbursúlum sem ganga ofan í steyptar undirstöður. Bálstæði verður í miðju skýlinu til að nota fyrir matseld og að einhverju leyti til hitunar rýmisins. Grjóthleðslur eru umhverfis skýlið. 

Grunnmynd af skýlinu. Teiknistofa Norðurlands.

Grunnmynd af skýlini, Teiknistofa Norðurlands.

Á fjárhagsáætlun ársins 2019 voru sex milljónir ætlaðar til hönnunar og mögulegra efniskaupa og í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2020 er gert ráð fyrir 10 milljónum í framkvæmdina.
„Arnar Birgir Ólafsson, landslagsarkitekt á Teiknistofu Norðurlands, hefur annast hönnun á skýlinu og liggja nú fyrir endanlegar teikningar af því. Byggingunni er ætlað að hýsa aðstöðu fyrir athafnir og samkomur tengdum útivist af ýmsum toga og er sú uppbygging stórt skref í að auka enn frekar notagildi þessa frábæra útivistarsvæðis sem Sauðárgilið og Litli-Skógur er fyrir íbúa og gesti sveitarfélagins,“ segir Indriði en heildar ásýnd svæðisins er með skírskotun í skagfirska sögu og á uppbyggingu bæjarstæða til forna.

Fleiri fréttir