Útstöð Flugakademíu Keilis verður á Sauðárkróki

Nú fara flugvélar Flugakademíu Keilis að láta sjá sig í Skagafirði á ný en hér má sjá Diamond DA40 kennsluflugvél Keilis hefja sig til flugs í nóvember sl. Mynd: PF.
Nú fara flugvélar Flugakademíu Keilis að láta sjá sig í Skagafirði á ný en hér má sjá Diamond DA40 kennsluflugvél Keilis hefja sig til flugs í nóvember sl. Mynd: PF.

Flugakademía Keilis mun á ný koma með kennsluflugvélar á Krókinn þar sem kennsla fer fram frá skólanum til framtíðar litið. Í nóvember síðastliðnum var gerð tilraun með verkefnið, sem tókst vel að sögn Arnbjörns Ólafssonar, markaðsstjóra Keilis, og í framhaldinu ákveðið að á Sauðárkróki verði ein af útstöðvum skólans.

Samvinna verður um verkefnið milli Keilis og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem mun m.a. koma að því að hýsa nemendur og kennara. Gert er ráð fyrir tveimur til fjórum kennsluvélum sem koma munu til Sauðárkróks næsta fimmtudag.

„Við erum mjög ánægð að geta gert Alexandersflugvöll og Sauðárkrók að framtíðarútstöð frá Flugakademíu Keilis. Þetta er mjög gott fyrir okkur, ekki síst eftir að skólinn stækkaði eftir sameiningu við Flugskóla Íslands,“ segir Arnbjörn og upplýsir að nú sé um stærsta flugskóla á Norðurlöndum að ræða. „Við stefnum á að gera enn betur og laða að okkur erlenda nemendur. Það sem heillar er svokallað „open sky“ þar sem á Íslandi geta flugnemar flogið nánast hvar sem er, hvert sem er og lent á öllum flugvöllum landsins, ólíkt því sem gerist annars staðar.“

Arnbjörn segir að frá Sauðárkróki munu flugnemar fljúga m.a. til Grímseyjar, Húsavíkur og Akureyrar. Í byrjun mars er ætlunin að halda upplýsingadag fyrir almenning um skólann og námið á Alexandersflugvelli og þá verður skrifað formlega undir samninga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir