Útvarpssendar settir á seli
Í lok júní og byrjun júlí fóru fram selamerkingar á vegum Selaseturs Íslands og Veiðimálastofnunar. Samtals voru 5 selir merktir með útvarpssendum, en voru þessar merkingar liður í verkefninu „Áhrif sela á laxfiska“.
Markmið verkefnisins í heild er að ákvarða áhrif sela sem dvelja á ósasvæðum á laxfiska. Þetta verður gert með því að kanna hegðun sela ásamt fæðuvali þeirra. Merkingarnar, sem er mikilvægur verkþáttur í rannsóknarverkefninu mun gefa upplýsingar um hreyfimynstur sela í kringum ósasvæðin og svara spurningum um hversu oft selir koma inn á svæðið, hvað þeir stoppa lengi í einu og svo framvegis.
Hvernig virkar þetta?
Móttökustöð er sett upp nálægt ósasvæðunum. Selir eru síðan veiddir í net og merkið er límt á haus þeirra. Selirnir eru einnig merktir með kúa merki (eyrnamerki) í afturhreifa, til þess að gefa okkur kost á að þekkja seinna hvaða einstaklingar hafa áður verið merktir. Þegar merktir selir koma inn á ósasvæðin við Bjargós eða Sigríðarstaðaós nemur móttökustöðin merki frá útvarpssendum og gögn um viðveru þeirra skráist í stöðina. Náð er síðan í gögn úr móttökustöðinni til úrvinnslu. Þegar merktir selir fara úr hárum að hausti til detta útvarpsmerkin af þeim og þeir halda áfram að lifa eðlilegu lífi. Hér að neðan má sjá myndir af merkingunni.
Verkefnisstjóri rannsóknarinnar er Sandra Granquist, dýraatferlisfræðingur og starfsmaður Selaseturs og Veiðimálastofnunar. Olle Karlsson selasérfræðingur við Naturhistoriska riksmuséet í Stokkhólmi, aðstoðaði við merkingarnar, en hann er einnig samstarfsaðili verkefnisins. Halldór Pálsson, bóndi á Súluvöllum, aðstoðaði við að veiða selina og lánaði okkur netin og bátinn sinn. Garðar Valur Gíslason, bóndi á Stórhóli aðstoðaði einnig við að veiða seli. Í verkefninu tóku einnig sjálfboðaliðarnir okkar Ester Sánchez og Laila Aranda Romero frá Spáni þátt ásamt því að Frank Bradford ljósmyndari fylgdi hópnum eftir og tók myndir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.