Valsmenn spilltu skagfirska draumnum

Þetta heiðursfólk er væntanlega á leið á Hlíðarenda á fimmtudaginn. Síkið var fullt upp í rjáfur í kvöld, góð mæting hjá gestunum og að venju klikkuð hjá stuðningsmönnum Tindastóls. Stemningin meiriháttar. Koma svo... MYND: HJALTI ÁRNA
Þetta heiðursfólk er væntanlega á leið á Hlíðarenda á fimmtudaginn. Síkið var fullt upp í rjáfur í kvöld, góð mæting hjá gestunum og að venju klikkuð hjá stuðningsmönnum Tindastóls. Stemningin meiriháttar. Koma svo... MYND: HJALTI ÁRNA

Það er einhver bið á því að Tindastólsmenn lyfti Íslandsmeistaratitlinum en síðasti sénsinn þetta árið verður í Origo-höllinni á Hlíðarenda nú á fimmtudaginn. Valsmenn gerðu sér nefnilega lítið fyrir og eyðilögðu draumapartý Stólanna með seiglusigri í Síkinu í kvöld. Heimamenn áttu hreint klikkaðan fyrsta leikhluta og voru eiginlega orðnir meistarar að honum loknum en svo bara gerðist eitthvað og sllt small í baklás. Í þremur síðustu leikhlutunum skoruðu Stólarnir 31 stig en höfðu gert 38 í þeim fyrsta. Lokatölur 69-82 og oddaleikur bíður liðanna en Stólarnir geta huggað sig við að þeir eru búnir að vinna þrjá leiki í röð í garði meistaranna.

Arnar og Taiwo voru allt í öllu í fyrsta leikhluta og skiluðu meginþorra stiga Stólanna. Þrjár síðustu mínútur leikhlutans breyttist staðan úr 23-20 í 38-23 og heimamenn í raun í draumaheimi. Strax í byrjun annars leikhluta var eins og lok hefði verið sett á körfuna sem Stólarnir sóttu á. Raunar gekk Völsurum lítið betur að skora eða allt þar til Frank Aron Booker komst í gírinn og fór að saxa á forskot heimamanna nánast upp sitt einsdæmi. Skyndilega var eins og allt væri erfitt hjá heimamönnum, ekkert gekk í sókninni og ekki hjálpaði þegar borðleggjandi villur á Valsmenn runnu flautulaust hjá garði. Valsmenn gengu á lagið og staðan var 48-43 í hálfleik.

Enginn í liði heimamanna fann nokkuð sem líktist fjöl í fjarska allan síðari hálfleikinn. Það var ekki endilega það að Valsmenn væru að spila svona vel, skotin vildu bara ekki niður og sem dæmi um það þá settu heimamenn átta þrista í tólf skotum í fyrsta leikhluta en aðeins einn í 24 það sem eftir lifði leiks. Gestirnir leiddu með fjórum stigum, 60-64, að loknum þremur leikhlutum en Stólarnir komu ferskir inn í fjórða leikhluta og komust yfir, 65-64, og leiddu 67-65 þegar átta mínútur voru til leiksloka. Á þessum átta mínútum sem eftir lifðu skoruðu Stólarnir tvo stig en Valur 17! Í síðari hálfleik gerðu Stólarnir 21 stig en Valsmenn 39 og því fór sem fór.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um frammistöðuna. Hún var stórundarleg. Taiwo var með 28 stig fyrir Stólana og Arnar skilaði 19. Drungilas var með tíu stig og níu fráköst en aðrir voru ekki að skila í sókninni og Keyshawn t.d. virtist aldrei tengdur og kominn í villuvesen fyrir hlé. Breiddin var aftur á móti fín í Valsliðinu þar sem reyndar aðeins sex leikmenn komust á blað en þeir skiluðu allir níu stigum eða meira. Vel gert hjá Valsmönnum.

Nú er því komin upp sú undarlega staða að leikmenn verða að halda sér á jörðinni en engu að síður stíga upp á sjálfum uppstigninardegi. Liðið sem nær betri balans á þessari mótsögn mun væntanlega verða Íslandsmeistari. Áfram Tindastóll!

Tölfræði leiks >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir