Valur Valsson mun stýra ljósleiðaravæðingu í dreifbýli Skagafjarðar

Valur Valsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasviði hjá Svf. Skagafirði frá 1. janúar sl. Valur er menntaður byggingatæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sl. ár sem verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar við FabLab á Sauðárkróki ásamt framleiðslu- og gæðastjórnun hjá Steinull hf.

Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs mun Valur sinna stýringu á ljósleiðaravæðingu í dreifbýli í Skagafirði sem er sameiginlegt verkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Mílu vegna landsátaksins Ísland ljóstengt sem styrkt er af ríkissjóði.

„Staðan á ljósleiðaravæðingunni er sú að búið er að leggja ljósleiðarann í jörðu á þeim svæðum sem Sveitarfélagið hefur fengið styrki til þess. Ennþá á eftir að ganga frá tengingum ljósleiðarans á vissum svæðum en unnið hefur verið að því síðustu mánuði og heldur sú vinna áfram nú á nýju ári,“ segir Indriði.

Í dag er verið að senda út tilkynningar til hluta íbúa í Lýtingsstaðahreppi þar sem búið er að tengja ljósleiðarann og eru það rúmlega 70 tengingar sem eru klárar á því svæði. Indriði segir að sveitarfélaginu hafi ekki borist tilkynning um það hversu háan styrk það hlýtur á þessu ári til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli en von er á svörum þar að lútandi á næstunni.

Ráðning Vals er tímabundin til eins árs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir