Vann ljósmyndasamkeppni Norðurlandaráðs

Magnea Rut Gunnarsdóttir, 15 ára íbúi í Húnavatnshreppi, vann á dögunum ljósmyndasamkeppni Norðurlandaráðs. Í verðlaun hlaut hún Ipad Air. Magnea hefur mikinn áhuga á hestum og ljósmyndum og segist staðráðin í að halda áfram að stunda þessi áhuga mál, þó hún hafi ekki ákveðið hvað hún tekur sér fyrir hendur sem aðalstarf í framtíðinni.

„Ég hef alltaf haft rosa gaman af því að taka myndir en byrjaði að hugsa meira út í það eftir að ég fékk myndavél í fermingargjöf,“ sagði Magnea í samtali við Feyki í morgun. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í svona keppni og þess vegna var ég bara mjög ánægð með að hafa unnið. Mér brá reyndar dálítið þegar ég sá það og mér finnst þetta ennþá dálítið óraunverulegt. En ég er ákveðin að halda áfram að taka myndir,“ sagði Magnea.

Að sögn Magneu var þema keppninnar Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna og var keppnin haldin í tilefni 25 ára afmælis hans. „Ég las yfir barnasáttmálann og velti fyrir mér hvernig best væri að túlka hann í mynd. Svo datt mér í hug að til þess að allir fái að njóta þessara réttinda þarf fleiri en eina manneskju. Hugmyndin er sú að hjálparhendurnar í samfélaginu eru í raun og veru þau sem passa uppá réttindi barna. Ég fékk skólasystkini mín til að hjálpa mér við uppsetninguna á myndinni og er þeim endalaust þakklát, enda frábærir vinir,“ sagði Magnea að lokum.

Magnea Rut Gunnarsdóttir, nemandi í 10. bekk í Húnavallaskóla. Magnea Rut Gunnarsdóttir, nemandi í 10. bekk í Húnavallaskóla.

Þessi mynd eftir Magneu, sem tekin var í Auðkúlurétt, birtist í Feyki í haust. Þessi mynd eftir Magneu, sem tekin var í Auðkúlurétt, birtist í Feyki í haust.

Fleiri fréttir