Var heltekinn af Bruce Springsteen í nokkur ár / ÓSKAR ÖRN

Óskar Örn Óskarsson keypti sér nýlega kaffi snemma morguns á flugvelli í Brussel og lenti þá í þeirri ánægjulegu lífsreynslu að rifja upp textann við lag Bobs Dyllans, One More Cup of Coffee, með „sjarmerandi og skemmtilegri eldri konu“. Hún byrjaði að syngja lagið á meðan hún hellti upp á en mundi svo ekki textann. „Hún vildi svo ekki sleppa mér fyrr en við vorum búin að rifja upp saman hvernig næsta lína í textanum væri. Og syngja hana.“ Svona getur lífið og tilveran átt óvænta og upplífgandi spretti.
Óskar Örn Óskarsson keypti sér nýlega kaffi snemma morguns á flugvelli í Brussel og lenti þá í þeirri ánægjulegu lífsreynslu að rifja upp textann við lag Bobs Dyllans, One More Cup of Coffee, með „sjarmerandi og skemmtilegri eldri konu“. Hún byrjaði að syngja lagið á meðan hún hellti upp á en mundi svo ekki textann. „Hún vildi svo ekki sleppa mér fyrr en við vorum búin að rifja upp saman hvernig næsta lína í textanum væri. Og syngja hana.“ Svona getur lífið og tilveran átt óvænta og upplífgandi spretti.

Enn heldur Feykir áfram að kanna tónlistaráhuga- og smekk fólks. Nú er komið að því að Óskar Örn Óskarsson læknir í Reykjavík treysti lesendum fyrir tón-lyst sinni. Óskar er fæddur 1973, sonur Óskars Jónssonar læknis og Aðalheiðar Arnórsdóttur sjúkraliða. Hann ólst upp á Sauðárkróki frá sex ára aldri, fyrst með búsetur í Læknisbústaðnum og síðar Túnahverfinu. Nú býr hann í Vesturbænum í Reykjavík.

Óskar segist eitt sinn hafa verið slarkfær á gítar en spurður um helstu afrek sín á tónlistarsviðinu segir hann: „Ég var gítarleikari í stórsveitinni Segulbandinu sem lifði 1987-1989. Ég, Fjölnir Ásbjörns, Arnbjörn Óla og Sossu, Björgvin Reynis og Kristinn og Kristján Kristjánsssynir fórum suður með Norðurleiðarrútunni, keyptum okkur hljóðfæri fyrir fermingarpeningana og töldum í. Maggi Eiríks seldi mér ódýrasta rafmagnsgítarinn sem til var í Rín á Frakkastíg. Hann virkar ennþá – held ég. Við æfðum í bílskúrnum heima hjá mér í Dalatúni 11 og seinna í tónlistarskólanum við Hegrabrautina, þökk sé Evu skólastjóra og Rögga Valbergs. Náðum nú að spila á einhverjum skólaböllum og bæjarvinnuskemmtunum. Vorum m.a.s. með grúppíur sem gerðu reyndar ekki annað en að njósna á bílskúrsgluggunum þegar við vorum að æfa. Þær vita hverjar þær eru!“

Hvaða lag varstu að hlusta á? -Ég var að leggja bíótónlistargetraun fyrir Hlyn frænda minn á Spotify. Þess vegna er titilstefið úr Forrest Gump það síðasta sem ég var að spila. Hlynur þekkti það strax.

Uppáhalds tónlistartímabil? -Ca. 1780–2019.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Kolbrún dóttir mín er mjög dugleg að spila fyrir mig ýmislegt nýtt og áhugavert. Hún er Spotifykrakki og er því ekkert alltaf að velta mikið fyrir sér hverjir flytjendurnir eru. Þess vegna hef ég yfirleitt ekki hugmynd um það heldur. En Post Malone, The Weeknd, Khalid og Imagine Dragons era til dæmis fínir. Ég vel Iron & Wine og Tallest Man on Earth.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Pabbi hlustaði á klassík og Simon & Garfunkel. Mamma hlustaði á Queen og Rod Stewart. Arna Rún stærsta systir hlustaði á Bowie, Pink Floyd og ELO. Allir hlustuðu á Bítlana. Enginn á Stones. Við bjuggum í Svíþjóð þegar Svíar skömmuðust sín enn fyrir ABBA, svo þau voru no-no…

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Arna systir og Simmi mágur gáfu mér Thriller með Michael Jackson í jólagjöf, líklega 1983 eða 84. Fyrsta fullorðins breiðskífan sem ég átti sjálfur og kann hana enn utan að. Hvern tón. Man bara ekki hver var fyrsta platan sem ég keypti mér sjálfur! Ekki gott. 

Hvaða græjur varstu þá með? -Átti engar græjur. Enda enn ófermdur. En það var Bang & Olufsen í stofunni, no less.

Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? -Ég og Inga systir elskuðum Roy Rogers með Halla og Ladda. Hef ábyggilega fílað eitthvað í botn á undan því en það er þá bara búið að snjóa of mikið yfir það.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? -Hvað sem er með Pöpunum. Sorrý Papar, en ég bara þoli ykkur ekki!

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Mig langar að segja Superstition með Stevie Wonder. Held samt að ég sé að skrökva. Það yrði sennilega eitthvað 80’s gúmmulaði. Eða Mr. Blue Sky með ELO, kannski?

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Beast Epic með Iron & Wine eða Carrie & Lowell með Sufjan Stevens. Kannski Island Songs með Ólafi Arnalds ef ég vill alveg eins sofna aftur…

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ég fer að sjá Tom Waits í einhverju hálfslitnu/hálfglæsilegu gömlu leikhúsi í San Fransisco sem tekur ekki mikið meira en 1000 manns. Fillmore West kannski? Eða kannski bara í gömlu sirkustjaldi í eyðimörkinni? Ingibjörg Hilmars kemur með!

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? -Mér finnst það hafa verið Ten með Pearl Jam en hún kom ekki út fyrr en ári seinna. Kannski keyrði ég bara ekkert fyrsta árið.

Hvaða tónlistarmaður hefur haft mest áhrif á þig? -Ókei, ég veit að það er ekki kúl að segja Bruce Springsteen, en ég geri það samt. Var algjörlega heltekinn af honum í nokkur ár þegar ég var unglingur og hef eiginlega ekki upplifað það með neinn annan tónlistarmann síðan. Nema kannski Mark Knopfler á svipuðum tíma. Sem er auðvitað enn minna kúl. Oh, well…

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? -Besta plata sem gefin hefur verið út? Ekki séns að ég fáist til að svara því! En Blue með Joni Mitchell er líklega sú sem mér þykir vænst um.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Kann ekki að biðja Spotify um það. En þessi væru ofarlega:

Tiger Mountain Peasant Song - Fleet Foxes
The Only Living Boy in New York - Simon & Garfunkel
Call It Dreaming - Iron & Wine
Bloodbuzz Ohio - The National
Little Green - Joni Mitchell
Song for Zula - Phosphorescent

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir