Varað við snörpum vindhviðum

Mikill og hlýr SV-strengur er yfir landinu og fer hann enn heldur vaxandi í dag, samkvæmt vef Vegagerðarinnar. Óveður er á Siglufjarðarvegi, Vatnsskarði og Þverárfjalli. Niður brattar fjallshlíðar steypast sviptivindar þar sem hviðurnar geta orðið allt að 35-45 m/s á Snæfellsnesi norðanverðu, á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Síðdegis og snemma í kvöld verður hvað hvassast á Norðurlandi, segir í ábendingu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Ennfremur segir að á utanverðum Tröllaskaga og við vestanverðan Eyjafjörð gæti styrkur í hviðum hæglega náð 45-55 m/s. Einnig í Skagafirði frá Varmahlíð á Sauðárkrók.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands verður suðvestan 18-25 en mjög snarpar vindhviður við fjöll síðdegis og fram eftir morgundeginum. Skýjað og dálítil rigning eða súld í fyrstu og hiti 3 til 8 stig. Kólnar á morgun með éljum og fer að draga úr vindi seinnipartinn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðvestan 13-20 m/s og él, en þurrt NA-lands. Kólnandi, og frost víða 0 til 7 stig.

Á miðvikudag:

Vestan- og suðvestanátt, 8-15 m/s. Él um landið vestanvert en léttir til A-til. Talsvert frost.

Á fimmtudag:

Vaxandi austanátt með snjókomu syðst eftir hádegi en stíf NA-átt og ofankoma N-til um kvöldið. Frost víða 5 til 12 stig, kaldast til landsins.

Á föstudag:

Norðaustan hvassviðri og snjókoma eða éljagangur en úrkomulítið SV-lands. Frost um allt land.

Á laugardag:

Útlit fyrir suðaustanátt með talsverðri úrkomu og hlýnandi veðri.

Fleiri fréttir