Varað við stormi í dag

Veðurstofa Íslands varar við stormi á landinu í dag, suðvestan 15-23 m/s, en 18-25 m/s síðdegis, hvassast á annesjum. Rigning eða slydda og síðar él og kólnar í veðri. Dregur úr vindi í kvöld og nótt. Suðvestan 10-18 á morgun og slydda í fyrstu, en síðan úrkomulítið og hlýnar aftur.

Á vef Vegagerðarinnar segir að vegir séu óðum að verða auðir á Norðurlandi en hálkublettir eru á Öxnadalsheiði. Í ábendingu frá veðurfræðingi segir að það snöggkólni með morgninum um leið og kuldaskil koma úr vestri. Snjóar víða á fjallvegum um vestanvert landið nú fyrir hádegi og frystir, en krapi verður á láglendi. Í kjölfarið V og SV stormur, 20-25 m/s og eitthvað verður um él. Sérstaklega verður hvasst um norðanvert landið frá miðjum degi og blint í skafrenningi á fjallvegum. Það á m.a. við um Öxnadalsheiðina fljótlega um og upp úr hádegi, Holtavörðuheiði og fjallvegi á Vestfjörðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:

Suðvestan 18-25 m/s, hvassast NV-til. Súld eða rigning, en þurrt NA- og A-lands. Hiti 3 til 10 stig. Kólnar V-til um kvöldið með slydduéljum eða éljum.

Á mánudag:

Suðvestan 15-23 m/s og él, en úrkomulítið NA-til. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag:

Stíf suðvestanátt og él, en yfirleitt þurrt A-lands. Kólnandi veður.

Á miðvikudag:

Vestlæg átt 5-13 m/s og dálítil él um landið V-vert, annars bjart með köflum. Kalt í veðri.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir suðlæga eða breytilega átt með snjókomu. Áfram kalt í veðri.

Fleiri fréttir