Varmahlíðarskóli flaug í úrslit í Skólahreysti eftir allt

Lið Varmahlíðarskóla. Frá vinstri: Heiðrún, Bríet, Arndís, Kolbeinn, Daníel og Eiríkur. MYND AF VEF VARMAHLÍÐARSKÓLA
Lið Varmahlíðarskóla. Frá vinstri: Heiðrún, Bríet, Arndís, Kolbeinn, Daníel og Eiríkur. MYND AF VEF VARMAHLÍÐARSKÓLA

Það var heldur betur boðið upp á drama þegar Skólahreysti grunnskólanema hófst í gær. Keppt var í íþróttahöllinni á Akureyri og fjórir skólar af Norðurlandi vestra tóku þátt í fyrra úrtakinu sem hóf keppni klukkan fimm í gær í beinni útsendingu í Sjónvarpinu. Þar tóku fulltrúar Árskóla, Grunnskólans austan Vatna, Húnaskóla og Varmahlíðarskóla á honum stóra sínum. Þegar upp var staðið kom í ljós að Varmahlíðarskóli bar sigur úr býtum, með 26,5 stig, þrátt fyrir að Brúarásskóli á Egilsstöðum hafi verið kynntur sigurvegari í beinni.

Brúarásskóli hafnaði því í öðru sæti með 36,5 stig og Myllubakkaskóli úr Reykjanesbæ varð í þriðja sæti með 31,5 stig. Hinir þrír skólarnir af Norðurlandi vestra komust því ekki í efstu þrjú sætin en stóðu sig engu að síður mjög vel. Grunnskólinn austan Vatna hlaut 29,5 stig og hafnaði í fjórða sæti, Árskóli endaði í fimmta sæti með 25,5 stig og Húnaskóli varð í sjötta sæti með 22 stig. Alls tóku átta skólar þátt í þessum riðli.

Sigurlið Varmahlíðarskóla var skipað þeim Daníel Smára Sveinssyni og Arndísi Kötlu Óskarsdóttur sem kepptu í hraðaþraut, Þá sáu Kolbeinn Maron L. Bjarnason og Heiðrún Erla Stefánsdóttir um hreystiþrautir en Bríet Bergdís Stefánsdóttir og Eiríkur Jón Eiríksson voru varamenn.

Keppnin var æsispennandi og skemmtileg og krakkarnir hreint magnaðir. Í frétt á síðu Varmahlíðarskóla segir: „Okkar keppendum gekk afar vel og fyrir hraðabrautina vorum við efst með 26,5 stig, bara einu heilu stigi á undan næsta skóla. Hraðabrautin var gríðarlega spennandi og ljóst að ekki mátti miklu muna stigalega séð á milli skólanna. Svo kom í ljós við verðlaunaafhendingu að við urðum í 2. sæti en viti menn, allt getur gerst: eftir endurtalningu refsistiga í hraðabrautinni kom í ljós að Varmahlíðarskóli vann riðilinn sinn.“

Samkvæmt upplýsingum Feykis hafði skólinn fengið refsistig fyrir að klára ekki kaðlaklifur í hraðabrautinni. Var gerð athugasemd við þetta og þegar myndbandið var skoðað kom sannarlega í ljós að kaðlaþrautin var kláruð – og þar með bættust við stigin sem tryggðu Varmahlíðarskóla sigurinn. Þá var búið að verðlauna hamingjusama nemendur Brúarásskóla sem voru sviptir verðlaunum sínum í þann mund sem þeir yfirgáfu höllina. Leiðinleg mistök en líkt og annar kynna keppninnar sagði síðar um kvöldið: „Langmikilvægast að réttur skóli fari áfram.“ Það er nefnilega þannig.

Sigurvegarar í undankeppnum Skólahreystis tryggja sér sæti í úrslitum. Ekki er öll von úti fyrir Brúarásskóla því fjórir skólar með bestan árangur í öðru sæti komast einnig í úrslit.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir