Vatnsdalsá og Skarðsá metnar sem hagkvæmustu virkjunarkostirnir

Vatnsdalsá. Mynd: ÓAB
Vatnsdalsá. Mynd: ÓAB

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um niðurstöðu skýrslu um virkjunarkosti á Norðurlandi vestra sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV). Á vef SSNV segir að tæplega 60 manns hafi sótt kynningarfund á vegum samtakanna sem haldinn var á Blönduósi í gær en þar kynnti höfundur skýrslunnar, Bjarki Þórarinsson frá Mannviti efni hennar.

Í skýrslunni eru taldir up 82 hugsanlegir virkjunarkostir í landsfjórðungnum, frá Hrútafirði til Skagafjarðar, og er hagkvæmni þeirra metin. Skýrslan var fyrst og fremst unnin eftir fyrirliggjandi gögnum eins og loftmyndum, kortum og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum, svo sem rennslismælingum Veðurstofunnar en ekki var farið í vettvangsferðir á hugsanlega virkjunarstaði og ekki haft samband við landeigendur. Þá var tengiskostnaður við dreifikerfið ekki tekinn inn í útreikninga á hagkvæmni enda eru aðstæður ákaflega misjafnar. Er því skýrslan aðeins fyrsta skrefið til að meta hvort virkjun einstakra vatnsfalli sé hagkvæm.

Níu virkjunarkostir voru flokkaðir í 2. og 3. hagkvæmniflokk en flestir hinna 82ja kosta lentu í 7. flokki sem sýnir lökustu hagkvæmnina. Samkvæmt skýrslunni eru virkjun í Vatnsdalsá í Vatnsdal og Skarðsá í Skagafirði hagkvæmustu virkjunarkostirnir á Norðurlandi vestra en báðir lentu þeir í 2. flokki. Þessir tveir kostir eru ákaflega ólíkir að stærð. Vatnsdalsá er sá stærsti sem kannaður var en Skarðsá er í minni kantinum. Báðir eru þeir á verndarsvæði og er Vatnsdalsá til að mynda kunn laxveiðiá.

Að kynningu Bjarna lokinni tók til máls Erla Björk Þorgeirsdóttir frá Orkustofnun sem benti á ýmis leiðbeinandi gögn um smávirkjanir sem eru á heimasíðu Orkustofnunar auk þess sem hún greindi frá reynslu annarra aðila af byggingu smávirkjana og hvernig stöðlun mannvirkja og tækja gæti lækkaði byggingarkostnað töluvert. Vignir Sveinsson, bóndi í Höfnum á Skaga, skýrði frá frumúttekt sem gerð hefur verið á því að virkja Langavatnsá á Skaga og nota Langavatn sem miðlunarlón. Úttektin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Þá sagði Tjörvi Bjarnason frá Bændasamtökum Íslands frá átakinu Hleðsla í hlaði sem snýr að því að koma upp litlum hleðslustöðvum hjá bændum og ferðaþjónustuaðilum.   

Að lokum kynnti Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, fyrirhugaða styrki til þeirra aðila sem hyggjast kanna betur möguleika á gerð smávirkjana hjá sér.

 

Upptöku af fundinum í heild sinni má nálgast á Facebook-síðu SSNV.

Skýrsluna má finna hér

Ítarlegri uppfjöllun um málið er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir