Vefráðstefna SSNV - Er vinnustaðurinn bara hugarástand?

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, stóðu fyrir vefráðstefnuninni Er vinnustaður bara hugarástand? í gær, fimmtudaginn 27. febrúar. Ráðstefnan var hluti af verkefninu Digi2Market sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun og miðar að því að efla dreifðari byggðir með því að nýta stafrænar lausnir almennt.

Sagt er frá vefráðstefnunni á vef SSNV. Þar segir að meðal aðgerða í gildandi byggðaáætlun (aðgerð B.7) sé gert ráð fyrir að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Svokölluð skrifstofusetur séu starfrækt víðsvegar í Reykjavík og einstaka byggðarlögum á landsbyggðum þar sem fyrirtæki og einyrkjar leigi sér skrifstofuaðstöðu. Hugtakið er þó mun algengara erlendis en það er hér á Íslandi.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, flutti inngangsorð að ráðstefnunni. Hún sagði meðal annars að ráðuneyti og stofnanir á vegum ríkisins hafi að einhverju leyti byrjað að auglýsa störf án staðsetningar en þar þurfi að gera betur. Ekki sé nóg að fyrirtæki og stofnanir séu opin fyrir flutningi á störfum út á land, samfélögin verði að vera tilbúin til að taka á móti þessu breytta landslagi. Í inngangorðum Unnar Valborgar kom einnig fram að hjá SSNV hafi verið skilgreint áhersluverkefni fyrir árin 2020-21 þessu tengt og ætlunin sé að stuðla að því að svona skrifstofusetur komist á legg hér á svæðinu og sé hugmyndin að byrja á að koma slíku setri upp á Hvammstanga.

Markmið SSNV með ráðstefnunni var að vekja athygli einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila á tækifærum skrifstofusetra. Á Akranesi er skrifstofusetur rekið af einstaklingsframtaki þó með stuðningi frá landshlutasamtökum. Í Vestmannaeyjum er Þekkingarsetrið rekið eftir svipaðri forskrift en sá rekstur er tryggður með framlögum á fjárlögum.

Erindi ráðstefnunnar gáfu innsýn inn í viðhorf rekstraraðila, yfirmanns starfsmanns sem vinnur fjarvinnu og starfsmanns sem vinnur fjarvinnu. Þeir sem töluðu voru Heiðar Mar, rekstraraðili skrifstofusetursins Coworking Akranes, sem sagði frá sinni reynslu af rekstri skrifstofuseturs, Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri sagði frá reynslu sinni af að hafa starfsmann sem er staðsettur fjarri höfuðstöðvunum og loks deildi Tryggvi Hjaltason hjá CCP reynslu sinni af því að vera starfsmaður sem vinnur fjarri höfuðstöðvunum.

Hægt er að nálgast upptöku af vefráðstefnuninni hér fyrir neðan og á youtube síðu samtakanna í stærri upplausn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir