Veganesti - Áskorandapenni Sigríður B. Aadnegard, skólastjóri Húnavallaskóla

Frá því að ég lauk námi úr Fósturskóla Íslands hef ég hef ég starfað við kennslu og stjórnum í leik- og grunnskólum. Það munu vera um það bil 35 ár. Hef ég lært og þroskast í gegnum þetta starf. Sumt hefur verið virkilega erfitt en oftast er gaman og fáir dagar eru eins allt er þetta þó lærdómsríkt og kennir svo margt um lífið og manneskjuna ( einu sinni hélt lítill frændi minn að orðið manneskja væri hræðilegt orð). 

Ég man svo vel eftir því þegar ég hóf störf á leikskóla í höfuðborginni nýlega útskrifuð og með stóra drauma. Það var mikill skellur að uppgötva að veruleikinn var víst ekki eins og í bókunum sem ég hafði lesið í náminu um skipulag og umgjörð leikskólastarfs. Það má samt segja að þetta hafi verið mjög þroskandi og hvatti mann til að bretta upp ermar og reyna að vinna úr því sem maður hafði. Skólinn hafði að vísu búið okkur vel undir það að vinna út frá aðstæðum, vera sveigjanleg og grípa tækifæri sem gefast. Einnig að sýna virðingu og tillitsemi og heiðarleika í störfum okkar.

Hefur það veganesti reynst mér vel í gegnum árin í starfi og leik og er það mín trú að ef við erum heiðarleg, sýnum virðingu og tillitsemi þá farnast okkur vel í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Þetta á við á svo mörgum sviðum í samfélaginu t.d. í fjölskyldum, vinnustöðum, á samfélagsmiðlum og ekki síst gagnvart náttúrunni. Ef allir reyna að gera ávallt sitt besta (og aðeins betur ef þess þarf) þá getum við gert ótrúlega hluti. Vert er samt að hafa það í huga að enginn er fullkominn og enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað. 

Að lokum vil ég vitna í Gunnar Hersvein heimspeking og rithöfund en hann hefur fjallað mikið um gildin í lífinu í sínum verkum.
“Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum og er svarið við fordómum. Hún er nauðsynleg í samfélagi sem vill leggja eitthvað af mörkum til að bæta heiminn.”
“Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju samfélagi og flest í að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum.”

Ég skora á vinkonu mína Kristínu Guðjónsdóttur að skrifa grein.

Áður birst í 33. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir