Veiði í Laxá á Ásum á 2,8 milljónir

Þriggja daga veiðiferð í Laxá á Ásum kostar 2,8 milljónir króna á besta tíma næsta sumar. Veiðifélagið Salmon Trails tók nýverið við laxveiðirétt í ánni af félaginu Lax-á.

Á visi.is segir að verðið í Laxá á Ásum hefur hækkað um 1,2 milljónir króna milli ára, eða um 75 prósent. Þar er aðeins veitt á tvær stangir og er verðið miðað við að báðar stangirnar séu keyptar. Laxá á Ásum, sem er skammt sunnan við Blönduós, hefur löngum verið vinsæl til laxveiða og hefur m.a. söngvarinn Eric Clapton vanið þar komur sínar.

Samkvæmt heimildum visi.is gætir titrings í laxveiðiheiminum vegna hækkunarinnar í Laxá á Ásum en kannski ekki síst vegna risatilboðs sem barst í Þverá og Kjarrá. Þar segir jafnframt að með öllu séu nýir leigutakar að borga um 650 milljónir króna fyrir fimm ára samning. Því þykir líklegt að veiðileyfi á besta tíma muni hækka um 50 prósent, úr 200 þúsundum króna í 300.

Bjarni Júlíusson, formaður Stangaveiðifélags Íslands, sagði tilboðið í árnar vera mjög hátt og eigi enn eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta muni hafa á markaðinn í heild. „Þegar svo er, er best að anda með nefinu og sjá hvað gerist,“ sagði Bjarni.

Að sögn Jóns Þórs Júlíussonar, eigandi Hreggnasa, sem leigir m.a. Grímsá og Laxá í Kjós, er hækkunin sú mesta sem hann hefur séð. „Síðan er auðvitað spurning hvað gerist næst. Hættan núna er að aðrir leigusalar fylgi í kjölfarið, að við förum að sjá fleiri útboð á laxveiðiám,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi.

Fleiri fréttir