Veiðisafn heiðrar gengnar hetjur
Veiðisafnið á Stokkseyri hefur sett upp til sýningar byssur og persónulega muni frá tveimur gengnum veiðimönnum, þeim Sigurði Ásgeirssyni í Gunnarsholti og Einari Guðlaugssyni frá Þverá en þeir létust báðir í apríl á þessu ári.
Báðir þessir veiðimenn sköruðu fram úr, að öðrum veiðimönnum ólöstuðum, hvað varðar árangur í refa- og minkaveiðum og eins hvað varðaði tækniþekkingu, uppfinninga- og útsjónarsemi á veiðislóð.
Veiðisafnið hefur eignast byssur og persónulega muni Sigurðar sem lést 19. apríl síðastliðinn. Einnig hefur safnið fengið muni og byssur frá Einari heitnum til sýningar samkvæmt sérstökum samningi. Einar lést af slysförum á veiðislóð ásamt veiðifélaga sínum Flosa Ólafssyni 2.april 2008.
Stjórn Veiðisafnsins vill þakka aðstandendum beggja þessara manna fyrir samstarfið sem leiddi til þess að við getum nú heiðra minningu þessara einstöku skotveiðimanna.