Vel heppnað Kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju
Það var hugljúf og falleg stund í Sauðárkrókskirkju mánudagskvöldið 28. apríl þegar hið árlega Kirkjukvöld var haldið. Gestir kvöldsins voru rúmlega 100 manns og var dagskráin glæsileg að vanda. Sr. Karl Matthíasson tók fyrstur til máls og kynnti lögin eitt af öðru, eins og honum einum er lagið, en það var Kirkjukór Sauðárkrókskirkju sem hóf sönginn. Stjórnandi kórsins var að þessu sinni Helga Rós Indriðadóttir og spilaði Rögnvaldur Valbergsson organisti á hljómborð og Sigurður Björnsson var á trommum. Einsöngvarar kvöldsins voru þær Lára Sigurðardóttir og Guðrún Jónsdóttir.
Lára Sigurðardóttir tók tvö lög með sinni einstöku fallegu röddu og til gaman má geta að hún tekur þátt fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Friðar á Samfés sem er söngkeppni og fer fram nk. helgi. Við óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var ræðumaður kvöldsins og verð ég að viðurkenna að hún kom mér skemmtilega á óvart. Ég var búin að búa mig undir að þurfa að hlusta á pólítíska ræðu sem ég hef, satt best að segja, lítinn áhuga á en nei það var sko aldeilis ekki staðan. Ræðan var á léttu nótunum, talaði um Skagfirsku tenginguna sína og viðmótið sem hún hefur fengið alls staðar af landinu þar sem hún hefur verið að halda sína fundi sem er að hennar sögn eitt af því sem hefur mótað hana mikið sem stjórnmálakonu. Eftir Kristrúnu tók Guðrún Jónsdóttir frá Miðhúsum við hljóðnemanum og söng þrjú lög sem voru fallega flutt hjá henni. Kirkjukór Sauðárkrókskirkju fullkomnaði svo söngkvöldið með að taka fjögur lög en lokalag kvöldsins var Allir heilir og risu þá allir upp úr sætum og tóku margir gestir undir með kórnum. Að endingu vil ég þakka kærlega fyrir skemmtunina og fallegan söng á Kirkjuvöldinu. Sjáumst að ári eða þann 27. apríl 2026!
Lára Sigurðardóttir og Helga Rós Indriðadóttir að stjórna kórnum af stakri snilld. Myndir tók Anna Szafraniec, móðir Láru.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.