Verkalýðsdagurinn er á morgun

Verkalýðsdagurinn, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, er á morgun, 1. maí. Dagurinn á sér 130 ára sögu en það var á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 sem samþykkt var tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Lögðu þeir til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um átta stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum.

Það var þó ekki fyrr en 1. maí árið 1923 sem fyrsta kröfugangan var gengin á Íslandi. Dagurinn varð þó ekki lögskipaður frídagur hér á landi fyrr en árið 1972. Til samanburðar má geta þess að Svíar gerðu daginn að frídegi árið 1938. (Heimild: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2299 )

Löng hefð er fyrir því að stéttarfélögin í landinu haldi hátíðarsamkomur á þessum degi. Tvær samkomur verða haldnar í tilefni dagsins á Norðurlandi vestra.

Í Skagafirði verður hátíðarsamkoma stéttarfélaganna í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð.
Húsið opnar kl.14:30 og formleg dagskrá hefst kl. 15:00 með hátíðarræðu dagsins. Ræðurmaður er Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. Í framhaldi af því verða kaffiveitingar en að þeim loknum verða flutt skemmtiatriði. Geimundur spilar á nikkuna og nemendur úr Árskóla og ungliðar í Karlakórnum Heimi flytja nokkur lög fyrir samkomugesti.

Á Blönduósi verður samkoma í Félagsheimilinu og hefst dagskráin klukkan 15:00. Þar er boðið upp á glæsilegar kaffiveitingar í boði Stéttarfélagsins Samstöðu sem USAH sér um að venju. Ræðumaður dagsins er Eiríkur Þór Theodórsson, formaður ASÍ-UNG. Boðið verður upp á frábæra tónlist og söng og afþreyingu fyrir börnin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir