„Við ætlum að sýna meira og betra núna“

Árni Eggert. MYND: HJALTI ÁRNA
Árni Eggert. MYND: HJALTI ÁRNA

Eins og fram hefur komið þá hefur loks verið gefið grænt ljós á íþróttaleiki eftir langa COVID-pásu. Feykir heyrði hljóðið í Árna Eggerti Harðarsyni, þjálfara kvennaliðs Tindastóls í körfubolta, en stelpurnar höfðu spilað þrjá leiki áður en íþróttamót voru sett á pásu í haust. Síðasti leikurinn fór fram 3. október og pásan því ríflega þriggja mánaða löng.

„Umfram allt erum við þakklát fyrir að staðan á faraldrinum sé slík að við fáum að spila aftur,“ segir Árni Eggert. „Liðið er búið að vera virkilega duglegt og meðvitað að passa sig hvert sé verið að fara og hverja er verið að hitta. Persónulegar sóttvarnir og lítill, þéttur hringur af fólki sem er umgengist. Allt liðið veit að ábyrgðin að fá að spila og fá að halda áfram að spila er í höndum allra sem koma að þessu. Það þurfa allir að standa saman í þessu til að þetta gangi upp. Það vill enginn bera ábyrgð á að fresta þurfi leikjum eða jafnvel hætta við mótið. Því síður að smita einhvern sem gæti veikst alvarlega. Vissulega er hægt að smitast hvar sem er en það er hægt að lágmarka líkurnar með því að fara eftir fyrirmælum og beita skynseminni. Með þetta að leiðarljósi er liðið að gera sitt til að halda aftur af þessum andstæðing.“

Tindastólsliðið fór ekki vel af stað í haust, unnu fyrri leikinn gegn Vestra í tvíhöfða en fengu óvænt bakslag í síðari leiknum. Liðið tapaði síðan leik í Grindavík áður en öllu var frestað.

„Fyrsti leikurinn í endurræsingunni er núna á laugardaginn og það er óhætt að segja að það sé mikil eftirvænting í liðinu. Síðan við fengum að byrja að æfa aftur hefur dugnaðurinn og vinnusemin verið til fyrirmyndar. Liðið er spennt að fá að sýna hvað við höfum lært og hvað við getum. Byrjunin var ekki okkur að skapi og við ætlum að sýna meira og betra núna. Við ætlum að gera Skagfirðinga nær og fjær stolta af liðinu sínu,“ segir Árni.

Ljóst er að fyrst um sinn verður stuðningsmönnum ekki leyft að mæta á pallana og segir Árni Eggert það skiljanlegt. „Við hvetjum samt alla til að nýta tæknina og fylgjast með á Tindastóll TV. Þótt við sjáum ykkur ekki þá finnum við stuðninginn.“

Á morgun, laugardaginn 16. janúar kl. 16, spila stelpurnar fyrsta leik sinn síðan í upphafi október en þá kemur sameiginlegt lið Hamars/Þórs í heimsókn í Síkið. Leikurinn verður sem fyrr segir sýndur á TindastóllTV. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir