„Við ætlum ekkert að bakka"

Verkfallsliðar á leið sinni til byggðarráðs Mynd: Anna Katarzyna Szafaniec
Verkfallsliðar á leið sinni til byggðarráðs Mynd: Anna Katarzyna Szafaniec

Nú stendur yfir þriðji dagur verkfalls hjá þeim félagsmönnum Kjalar stéttarfélags, er starfa í leikskólum Skagafjarðar. Á morgun ganga þeir aftur til starfa, en ef ekki tekst að semja, munu þeir hefja tveggja vikna verkfall mánudaginn 5. júní.

Samband íslenskra Sveitarfélaga og BSBR, heildarsamtök stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu fara með samningsumboðið og hafa fundað linnulaust undanfarnar vikur. Viðræður virðast þó þokast í rétta átt en fram kemur í frétt ríkisútvarpsins að formenn hafi gengið bjartsýnir til fundar í dag klukkan 13:00.

Síðan verkfallið hófst hafa þeir starfsmenn leikskólanna sem eru í verkfalli komið saman á neðri hæðinni á Kaffi Krók. Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, hefur talað við starfsmennina tvisvar á dag í gegnum fjarfundarbúnað, farið yfir stöðuna, veitt upplýsingar og svarað spurningum. Arna Jakobína var einmitt að fara yfir stöðuna þegar blaðamaður Feykis leit við laust fyrir klukkan tíu í morgun.

Blaðamaður settist niður með þeim Sæunni Kristínu Jakobsdóttur, Sólrúnu Hörpu Heiðarsdóttur, Ingu Jónu Sigmundsdóttur, Önnu Katarzyna Szafaniec og heyrði í þeim hljóðið. Þær starfa allar á leikskólum á Sauðárkróki.

Við erum að berjast fyrir því að fá afturvirka launahækkun fyrir þrjá mánuði eftir áramót, það sama og meðlimir Öldunnar fengu. Við viljum fá sömu laun afturvirkt. Það er búið að samþykkja að við fáum afturvirkt til 1. apríl, en við viljum fá afturvirkt frá 1. janúar líkt og Aldan. Þetta fólk sem er í Öldunni er búið að vinna við hliðina á okkur, á deildunum, vinna nákvæmlega sömu vinnu en fá 46.000 kr. meira borgað hver mánaðamót."

Það er starfsmaður sem er að vinna undir mér sem er á hærri launum heldur en ég," segir ein þeirra.

Fóru á fund byggðarráðs

Starfsmenn leikskólans hafa skrifað bréf til sveitastjórnar og sveitarstjóra Skagafjarðar undir yfirskriftinni „Við krefjumst réttlætis!“. Bréfið var afhent og lesið upp fyrir byggðarráð á fundi þess í gær.

„Við förum á fund byggðarráðs í gær, með bréf með undirskriftum okkar allra. Þar segir sveitarstjórinn okkur að við séum s.s. með útrunna samninga og getum þar af leiðandi ekki samið afturvirkt til 1. janúar því samningar okkar hafi runnið út í mars. Þeir renna vissulega út 31. mars en þá eru þeir lausir sem þýðir það að við getum samið um allt.“

Áframhaldandi verkfall í næstu viku ef samningar ekki nást

Aðspurðar út í framhaldið, segja þær að það sé vinna hjá þeim á morgun og svo áframhaldandi verkfall á mánudag ef samningar ekki nást.
„Það er vinna á morgun og ef það tekst ekki að semja, þá erum við að fara í verkfall í tvær vikur frá og með mánudeginum 5. júní og við ætlum í rauninni ekkert að bakka.“

Að lokum vilja þær koma á framfæri þökkum til Sólveigar Örnu Ingólfsdóttur, leikstólastýru, að það sé til fyrirmyndar hvað hún sé búin að standa sig vel.

„Hún stendur með okkur og fer eftir öllum reglum. Við förum tvisvar á dag í leikskólann og tökum stöðuna, og það hefur ekki verið neitt um verkfallsbrot.“

Samband íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð sveitarfélaganna

Blaðamaður hafði samband við Sigfús Inga, sveitarstjóra Skagafjarðar og spurði hann út í hvað fram fór á byggðarráðsfundinum í gær.

„Það sem ég áréttaði í gær var það sama og hefur komið fram frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en sambandið fer með samningsumboð sveitarfélaganna í landinu. Það liggur ekki hjá einstaka sveitarfélögum. Þessi skilaboð voru þau að Samband íslenskra sveitarfélaga bauð ítrekað forystu BSRB í kjaraviðræðum ársins 2020, samning sem tryggt hefði félagsmönnum þeirra launahækkanir frá 1. janúar 2023. BSRB var sem sagt boðinn sambærilegur samningur um sambærileg kjör og þau sem Starfsgreinasambandið hafði þegar gert.“

„Ég sagði að ágreiningur Sambandsins og BSRB snerist um þennan prinsipp-ágreining, þ.e. hvort leiðrétta ætti afturvirkt inn á liðinn samning eða hvort samið yrði afturvirkt til 1. apríl, líkt og Sambandið hefur boðið, þ.e. frá og með þeim tíma þegar hinn samningurinn rann út.“

 

Bréf starfsmanna leikskóla Skagafjarðar til sveitarstjórnar og sveitarstjóra er eftirfarandi:

Við krefjumst réttlætis!

Það er fjarstæðukennt að árið 2023 sjái sveitarstjórn Skagafjarðar ekkert að því að starfsfólk þeirra sem sinna nákvæmlega sömu störfunum séu á mismunandi launum. Það er sárt og erfitt að vita til þess að sveitarstjórnin hafi ekkert gert til að hafa áhrif á þessa stöðu og stuðla að gerð réttlátra kjarasamninga.

Við gerum okkur fulla grein fyrir mikilvægi starfa okkar sem halda samfélaginu gangandi og sinnum þeim af mikilli ábyrgð og alúð. Launin endurspegla að engu leyti samfélagslegt verðmæti starfanna. Þess vegna er viðvarandi mannekla í mörgum af þessum störfum, mikil starfsmannavelta og erfiðar starfsaðstæður sem birtast í hárri veikindatíðni. Þannig er verið að bæta gráu ofan á svart með því að mismuna okkur í launum gagnvart öðru starfsfólki sveitarfélagsins. Kröfur okkar eru réttlátar og sanngjarnar og kostnaðurinn sem af þeim hlýst er lágur ef litið er til heildar launakostnaðar sveitarfélagsins og þeirrar staðreyndar að þær fela í sér að jafna kjör starfsmanna leikskóla innan sveitarfélagsins Skagafjarðar og við starfsmenn Reykjavíkurborgar.

Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur í umboði sveitarfélagsins við gerð kjarasamninga en sveitarfélagið Skagafjörður ber sjálft ábyrgð á að vinna í samræmi við jafnlaunavottun, jafnlaunareglur og sína eigin mannauðsstefnu. Því skorum við á sveitarstjórn Skagafjarðar að grípa til aðgerða til að stuðla að gerð kjarasamninga. Að öðrum kosti mun það fela í sér miklu hærri fórnarkostnað fyrir samfélagið þegar grunnþjónusta skerðist verulega og óánægja okkar eykst með hverjum degi sem líður án kjarasamnings.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir