„Við erum að spila mjög vel sem lið“

Jamie þjálfari. MYND: ÓAB
Jamie þjálfari. MYND: ÓAB

Feykir hafði samband við Jamie McDonough þjálfara karlaliðs Tindastóls þegar fjórum umferðum er lokið í 3. deildinni. Lið Tindastóls er í efri hluta deildarinnar með sjö stig eftir tvo sigurleiki, eitt jafntefli og eitt tap. Hann var fyrst spurður um leikinn gegn Álftanesi. „Við áttum aftur frábæran leik ... í 60-70 mínútur. Við stjórnuðum leiknum, vorum 70% með boltann og sköpuðum okkur ágæt færi. En líkt og í leikjunum gegn liðum Hugins/Hattar og Vængjum Júpíters þá verðum við að klára leikina þegar við höfum svona yfirburði,“ segir Jamie.

Um liðna helgi tapaði lið Tindastóls gegn Garðbæingum í liði KFG sem er einskonar B-lið Stjörnunnar og hefur á að skipa góðum leikmönnum. Tapið var engu að síður slæmt. Strákarnir rifu sig upp í fyrrakvöld þegar þeir lögðu lið Álftaness. „Við þurftum að rétta okkar hlut eftir KFG leikinn,“ segir Jamie. „Við vorum mjög svekktir og reiðir vegna frammistöðu okkar í þeim leik. Við reyndum að gera réttu hlutina en við vorum ekki góðir með boltann þann daginn. Við getum kennt vellinum og vindinum um en við eigum ekki að þurfa að nota slíkar afsakanir. Við vorum ekki nógu góðir. Á Alftanesi vorum við aftur farnir að spila mjög vel. Við gerðum vel í því að stjórna leiknum þar þegar við vorum undir pressu. Strákarnir eru að leggja á sig mikla vinnu fyrir liðið. Jónas Aron, Arnar Ólafsson og Pablo hefðu ekki getað hlaupið meira en þeir gerðu. Jónas hættir aldrei – hann er eins og hungraður hundur!

Hvað finnst þér um frammistöðu Tindastóls það sem af er sumri? „Við erum að spila mjög vel sem lið. Strákarnir elska „nýja“ leikstílinn okkar. Hann er ólíkur því sem menn eiga að venjast þegar þeir horfa á lið Tindastóls. Við viljum spila leikinn – við viljum hafa boltann.

Ef við sleppum slæma deginum okkar sem var gegn KFG (öll lið eiga þá – því miður!) þá höfum við stjórnað öllum leikjunum sem við höfum spilað. Þjálfarar annarra liða hafa jafnvel tjáð mér að við höfum verið betra liðið í 45 mínútur í Vestmannaeyjum. Þetta er mjög mikilvægt. Við höfum aðeins verið saman í sex vikur og þetta er verkefni í þróun og við munum halda áfram að bæta okkur.

Við erum með nokkra mjög góða leikmenn, heimastráka sem eiga skilið tækifæri til að sýna að þeir geta spilað. Ekki bara dúndrað boltanum fram og barist fyrir úrslitum. Og við erum að gera það. Ég heldað þessi nýi leikstíll hafi minnt alla á hversu góður Konni Freyr er. Hann hefur verið magnaður það sem af er. Með réttu leikmennina í kringum sig stjórnar hann fótboltaleikjum. Ég elska að horfa á hann spila og það er mjög ánægjulegt að vinna með honum. Hann er svo mikilvægur fyrir okkar félag, bæði innan og utan vallar.“

Hvað finnst þér um getu liðanna í 3. deildinni? „Þessi deild er erfið. Ég held að það séu líklega fimm lið í 3. deildinni sem gætu klárað um miðja deild í 2. deild. Það er reynsla og tenging hjá mörgum félögum og liðum við stærstu knattspyrnulið landsins. Stóru félögin vilja hafa „B liðin“ sín í 2. deild og þau eru að leggja mikla peninga og leikmenn í púkkið til að svo geti verið.

En við þekkjum markmið okkar og við vitum líka hversu mikil geta okkar er. Við munum halda áfram að vinna að því að verða eins góðir og mögulegt er og um leið að skemmta þessu góða fólki hér á Króknum með virkilega góðri knattspyrnu!“ segir Jamie að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir