Við erum öll yndisleg :: Kristín Guðmundsdóttir - brottfluttur Króksari

Það er andi og orka yfir Króknum og mikið framtak og dugnaður í fólkinu sem býr þar. Sumir hafa hvergi annars staðar búið en aðrir brottfluttir fyrir löngu síðan. Ég flutti frá Sauðárkrók fyrir 34 árum en samt er alltaf eins og að koma heim þegar ég kem á Krókinn.

Við hjónin höfum búið og unnið víðsvegar um heiminn undanfarin ár, t.d. á Möltu, Dubai og Bretlandi, og ég hef kynnst þar ólíkum menningarheimum og fólki. Það er eitthvað sérstakt við allar þjóðir og eftir að hafa búið á fleiri stöðum þá verður auðveldara að benda á það sem gerir okkur Íslendinga sérstök. Síðan getum við Íslendingar auðveldlega bent á muninn sem er á Reykvíkingi og Króksara og það getur oft verið fyndin æfing.

En það sem ég hef lært á þessum árum er að við höfum öll sömu grunnþarfir og þær hefðir og venjur sem við höfum, hverjar svo sem þær eru, eru jafn mikilvægar okkur öllum. Það sem síðan gerist sem er mikilvægt að gera sér grein fyrir er að þegar maður flytur til annars lands og er orðinn útlendingurinn í landinu þá verða hefðir og venjur ennþá mikilvægari og maður rígheldur í þær.

Ég man t.d. eftir því að vera spurð hvort við töluðum íslensku heima við börnin, ég horfði forviða á manneskjuna og átti ekki til orð. Að sjálfsögðu töluðum við íslensku við börnin heima, annað hefði verið fáránlegt. Einnig héldum við jól og páska eins og venjulega, sama hvar við vorum. Við Íslendingar verðum nefnilega að sýna öllu þessu frábæra fólki sem kemur til landsins til að vinna og búa skilning á að þeirra hefðir og venjur eru þeim mjög mikilvægar og jafnvel mikilvægari en áður og hérna tala ég af eigin reynslu.

En nú erum við flutt aftur til Íslands og það var alveg pínu erfitt get ég sagt ykkur, þegar sjóndeildarhringurinn er orðinn mjög breiður og margt nýtt orðið hluti af þessu venjulega þá getur verið erfitt að fara til baka. Eins og það var margt sem í byrjun fór í taugarnar á mér í hverju landi sem við fluttum til, þar sem „þetta fólk“ gerði hlutina öðruvísi en Íslendingar, þá hefur sko margt farið í taugarnar á mér við hvernig Íslendingar gera hlutina og geta verið, að mér finnst, gamaldags á köflum. Það sem ég er að reyna að segja er, verum umburðarlynd, sýnum tillitsemi og kærleik. Við erum öll yndisleg eins og við erum.

Ég skora á Hrafnhildi Valgarðsdóttur að skrifa næsta pistil.
Áður birst í 19. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir