Við viljum samtalið

Í sveitarstjórn sitja fulltrúar sem íbúar hafa kosið til að standa vörð um hagsmuni sína og taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Það hefur verið gríðarlega lærdómsríkt að hafa fengið traust til þess að sitja í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar síðastliðin fjögur ár. Eiginlega eins og að vera í námi með vinnu, því að kvöld og helgar fara í að setja sig inn í ákveðin málefni eða eiga samtöl við íbúa um hvað má gera öðruvísi eða betur.

Börnin mín hafa stundum yppt öxlum þegar ég sit yfir lestri á grásleppu- eða fráveitu frumvarpi sem eru kannski ekki efst á áhugalistanum en það er nauðsynlegt að setja sig inn í margvísleg málefni sem kjörinn fulltrúi, öðruvísi er ekki hægt að taka upplýstar ákvarðanir. Ábyrgðin er mikil og er það skylda sveitarstjórnarfólks að leitast við að taka afstöðu til mála út frá heildarhagsmunum allra íbúa.

Við höfum stuðlað að

Við hjá VG og óháðum höfum einmitt horft á heildarhagsmuni íbúa og höfum meðal annars stuðlað að verulegri hækkun hvatapeninga og styttingu vinnuvikunnar sem tilraunaverkefnis á leikskólum Skagafjarðar, en sú tillaga VG og óháðra var samþykkt af sveitarstjórn í febrúar 2019 áður en stytting vinnuvikunnar varð kjarabundin og er almenn ánægja með útfærsluna. Við höfum hvatt til þátttöku í heilsueflandi samfélagi en sú innleiðing var á málefnaskrá okkar fyrir síðasta kjörtímabil. Við komum því að í útboði matar fyrir leik- og grunnskóla á Sauðárkróki að eldað yrði úr hreinni afurðum og sem mest úr heimabyggð. Þannig minnkum við kolefnisspor og styrkjum eigin innviði. Við höfum lagt áherslu á aukið gagnsæi í stjórnsýslunni þó þar þurfi enn að gera mikið betur. Við höfum stuðlað að auknu samráði við íbúa og lagt áherslu á að úrvinnsla íbúafunda sé sýnileg. Það er nauðsynlegt að auðvelt sé að fylgjast bæði með ákvarðanatöku fulltrúa og þeim verkefnum sem unnið er að hverju sinni. Þess vegna viljum við sýnilegt mælaborð á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem íbúar geta fylgst með framvindu verkefna, kostnaði við þau og hvernig úrvinnslu íbúafunda er háttað. Slíkt mælaborð myndi sannarlega vera bæði aðhald fyrir þá sem um peningana halda sem og upplýsandi fyrir þá sem peningana greiða.

Við höfum staðið gegn

Hlutverk minnihluta er m.a. að sýna aðhald, spyrja gagnrýninna spurninga og leggja til aðrar lausnir en þær sem einblínt er á. Það höfum við gert t.d. með því að óska margsinnis eftir óháðri úttekt á lengd jarðstrengs við fyrirhugaða lagningu Blöndulínu 3 sem og að leggja áherslu á að slík framkvæmd sé gerð í sem mestri sátt við íbúa. Við höfum ekki samþykkt hækkun álagninga fasteignagjalda eða hækkun fæðisgjalda í leik- og grunnskólum. Við höfum staðið á móti hækkun leikskólagjalda, enda eru leikskólagjöld sveitarfélagsins orðin með þeim hæstu á landinu. Við samþykktum ekki hækkun á leigu í félagslegum íbúðum og viljum að leiguverð á íbúðum í eigu sveitarfélagsins taki mið af staðsetningu og ástandi en ekki sé eingöngu eitt leiguverð á fermetra. Við erum eini listinn sem hefur staðið gegn þessum hækkunum. Við höfum aldrei samþykkt meðferð Byggðarsafnsins sem enn er geymt í kössum í geymslurými að miklu leyti. Við viljum ekki virkjanaáform í Jökulsánum heldur vernda sérstöðu þeirra. Við erum eini listinn sem styður áform Rammaáætlunar 3 um að setja Jökulárnar í vernd og tökum ekki undir áform meirihluta um að halda Jökulsánum í biðflokki.

Við viljum stefna á að

Samfélagið gerir kröfu um stóraukið gagnsæi, opna stjórnsýslu, heiðarleika og vönduð vinnubrögð. Það er sjálfsagt og eðlilegt að bregðast við þeirri kröfu með t.d. skýrari verkferlum í stjórnsýslunni, greinargóðum fundargerðum, með opnu bókhaldi og með auknu samráði við íbúa og íbúakosningum. VG og óháð vilja að lögbundinni þjónustu sé sinnt vel um allt hérað og að við göngum lengra í valkvæðri þjónustu sem skapar jöfnuð og raunverulega heilsueflandi og fjölskylduvænt samfélag. Við heyrum mikið af skorti á samtali við íbúa og starfsfólk sveitarfélagsins.

Við viljum samtalið!

Álfhildur Leifsdóttir
Skipar 1. sæti á lista VG og Óháðra í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir