Víða kvartað undan leka

Talsverður snjór er nú um land allt og víða mikill klaki. Þegar hlýnar og rignir er töluverð hætta á vatnstjónum og hafa margir kvartað undan leka, þá aðallega frá þökum og svölum en einnig í kjöllurum eða bílskúrum.

Nokkrar tilkynningar um leka frá þökum bárust til Vís þegar hlýnaði s.l. föstudag og samkvæmt Sigurbirni Bogasyni frá þjónustuskrifstofu Vís á Sauðárkróki er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um þá hættu sem geti  skapast og bregðist við henni.

Nauðsynlegt er tryggja að vatn eigi greiða leið

- Hreinsa frá öllum niðurföllum sem eru nærri húsinu.
- Hreinsa snjó frá anddyrum kjallara og niðurfalla þar.
- Hreinsa frá rennum og niðurföllum þaka, sér í lagi flatra þaka. Það verður þó að gera með mikilli varúð og tryggja öryggi viðkomandi.
- Moka rásir meðfram húsum til að vatn eigi greiða leið burt en safnaðist ekki í tjarnir. Oft bráðnar snjórinn fyrst upp við húsveggi og leitar þá inn í húsið eftir sprungum í veggjum ef það á ekki greiða leið burt.
- Hreinsa allan snjó af svölum og tryggja að niðurfall virki. Ef svo er ekki er hægt að hella heitu vatni ofan í niðurfallið. Ef vatn safnast fyrir á svölum er hætta á að það fari inn með plötuskilum og leki síðan niður á næstu hæð. Slíkt tjón getur verið erfitt að laga því oft kemst talsvert vatn inn í sprunguna.

Ef yfirborðsvatn verður svo mikið í asahláku að venjuleg vel hreinsuð niðurföll hafa ekki undan er það tjón bætt sem stafar af vatni sem streymir inn í hús. Ekki er skylt að bæta öll vatnstjón, til dæmis ekki vegna:

- Vatns sem kemur inn frá þökum, þakrennum eða frárennslisleiðslum þeirra eða frá svölum.
- Vatns sem þrýstist upp um frárennslislagnir nema ef leiðslan stíflast eða springur innan húss.

Jafnframt er mikilvægt að átta sig á því að við vissar aðstæður verður mun meiri þungi í snjónum. Þá er hætta á að þök og þakkantar gefi sig ef snjór er ekki hreinsaður af þökum en nú þegar hafa slík tjón verið tilkynnt til VÍS.

 

 

Fleiri fréttir