Víða mikið tjón vegna kals í túnum
Mikið kal er í túnum margra bæja í Skagafirði eftir veturinn og hafa bændur orðið fyrir miklu tjóni vegna þessa. Stjórn Búnaðarsambands Skagafjarðar fundaði um málið á dögunum og lýsti þungum áhyggjum yfir því hvort bændur fengju tjónið bætt. Fjallað er um málið í Bændablaðinu.
Rætt er við Eirík Loftsson, ráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, sem hefur verið að meta ástand túna fyrir bændur í Skagafirði og segir hann kalskemmda gæta víða.
„Ástandið er vissulega misjafnt milli svæða og milli bæja en þau svæði sem fóru verst út úr kalinu í fyrra eru sömuleiðis þau sem verða illa úti núna. Það virðist vera mest kal í Hegranesi, Viðvíkursveit, inni í Hjaltadal, út Óslandshlíð, á Höfðaströnd og Sléttuhlíð og það er einnig eitthvað kal í Fljótum. Bæir á þessum svæðum sem sluppu betur en aðrir í fyrra hafa sumir hverjir orðið illa úti núna.
Árangur af þeirri miklu endurrækt sem menn réðust í í fyrravor vegna kals er ansi misjafn núna. Sums staðar er talsvert mikið sem þarf að laga. Um það eru dæmi langt fram í fjörð, frammi í Tungusveit og í Akrahreppi svo dæmi séu tekin. Það er því víða sem þetta mun ódrýgja uppskeru. Við erum hins vegar mjög lánsöm með vorkomu núna og það mun hjálpa mikið, trúi ég,“ sagði Eiríkur í samtali við Bændablaðið.
Kalið segir Eiríkur vera mikið á stökum bæjum, allt að 60% þar sem ástandið er verst. „Í slíkum tilfellum komast menn illa af nema að afla sér heyja annars staðar,“ segir Eiríkur. Oft er miðað við að eigin áhætta sé í kringum 20% en á hátt í 20 bæjum í firðinum er kal yfir þeirri tölu að því er Eiríkur telur.
Ekki telur Eiríkur þó ástæðu til að hafa áhyggjur af heyskorti almennt í Skagafirði næsta vetur, einhverjir bændur hafa nú þegar gert ráðstafanir til að fá slægjur á öðrum jörðum.
Úttekt ráðunauta skilyrði fyrir bótum
Ekki er komin nein heildarmynd á tjónið á einstökum bæjum vegna kalsins að sögn Eiríks en hann hefur verið í sambandi við Bjargráðasjóð vegna málsins. Sigurgeir Hreinsson stjórnarformaður hjá Bjargráðasjóði hvetur bændur til þess að láta ráðunauta taka út kaltjón, en slíkar úttektir eru skilyrði fyrir bótum úr sjóðnum.
„Við vitum það samt að það er kal víða um land en það er ekki í mörgum sveitum sem það er umtalsvert. Við vitum þó að það er talsvert í austanverðum Skagafirði. Það hefur kalið í mörgum sýslum, á Suðurlandi, á Snæfellsnesi, í Húnavatnssýslum og víðar. Þetta eru yfirleitt frekar fáir bæir en þar sem er kalið er tjónið sums staðar talsvert mikið.“
Bjargráðasjóður fékk sérstaka fjárveitingu vegna mikils kals í fyrra, einkum í gegnum Jarðræktarsjóð, til endurræktunar en Sigurgeir segir að miðað við þær upplýsingar sem fram séu komnar reikni hann ekki með því að sérstaka fjárveitingu þurfi til að bregðast við þetta árið. „Sjóðurinn ræður við að greiða einhverjar bætur sjálfur án aðstoðar,“ segir hann að endingu.