Víðidalstungurétt um helgina

Stóðréttir verða í Víðidalstungurétt nú um helgina. Stóðinu verður smalað á morgun, föstudag og það svo rekið til réttar á laugardag.

Dagskráin er í grófum dráttum á þá leið að á föstudag eftir að stóðinu hefur verið smalað verður því hleypt í gegnum hliðið við Bergárbrú kl. 14:30. Áð verður að Kolugili og lagt þaðan af stað með stóðið og það rekið í næturhólf kl. 17:30. Hægt verður að kaupa sér hressingu í skemmunni á Kolugili milli kl. 14:00 og 17:00 og frá kl. 17:00 fæst kjötsúpa í réttarskúr kvenfélagsins Freyju við Víðidalstungurétt.   

Ýmislegt verður svo hægt að gera sér til skemmtunar. Í Mjólkurhúsinu á Stóru-Ásgeirsá verður opinn bar, bæði í kvöld og á föstudagskvöld en þá verður þar partý aldarinnar, að sögn staðarhaldara, þar sem Mjólkurhúsbandið mun leika af fingrum fram.
Á Gauksmýri verður grillhlaðborð á föstudagskvöldið og í gestastofunni í reiðskemmunni verður slett úr hófunum og opið frá kl. 21:30. Barinn verður opinn og Júlli trúbador ætlar að halda uppi fjörinu með lifandi tónlist eftir kl. 22:00. Frítt er inn á báða staðina. 

Á laugardegi verður svo rekið til Víðidalstunguréttar kl. 11:00. Kvenfélagið verður að vanda með kaffisölu á staðnum og fylgir happdrættismiði frá Hrossaræktarfélagi Þorkelshólshrepps með keyptum veitingum þar sem fyrsti vinningur er folatollur undir Eld frá Bjarghúsum.

Um kvöldið verður opið hús í Mjólkurhúsinu á Stóru-Ásgeirsá fram eftir kvöldi og klukkan 23:00 hefst stóðréttardansleikur í Víðihlíð þar sem hljómsveitin Trukkarnir sjá um fjörið. Miðaverð er 3.500 krónur og hægt verður að kaupa miða í réttunum fyrr um daginn og í dyrunum um kvöldið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir