Vilja að ríkið tryggi áfram endurgreiðslu kostnaðar vegna refaveiða
Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra þann 11. nóvember sl. var samþykkt samhljóða að mótmæla áformum ríkisvaldsins um að hætta endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna kostnaðar við refaveiðar á árinu 2011.
„Sveitarstjórn Húnaþings vestra mótmælir harðlega áformum ríkisvaldsins um að hætta endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna kostnaðar við refaveiðar á árinu 2011. Útgjöld sveitarfélagsins vegna refaveiða hafa aukist umtalsvert á liðnum árum. Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á alþingismenn Norðvesturkjördæmis að beita sér fyrir því að boðuðum áformum stjórnavalda verði hnekkt og tryggt verði að sveitarfélögum verði áfram tryggð endurgreiðsla kostnaðar vegna refaveiða.“
Hvammstangi 12. nóvember 2010
Skúli Þórðarson, sveitarstjóri.