Vilja halda rekstri Háholts áfram

Fyrrum starfsfólk meðferðarheimilisins Háholts í Skagafirði boðuðu áhrifafólk til fundar í sl. mánudagskvöldi til að ræða stöðu heimilisins og framtíðarhorfur á rekstri. Eins og áður hefur komið fram bendir allt til þess að starfsemin leggist af nái vilji Barnaverndarstofu fram að ganga. Á fundinn mættu, auk fyrrum starfsmanna Háholts, Stefán Vagn Stefánsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir og Viggó Jónsson fulltrúar úr sveitarstjórn Svf. Skagafjarðar, Pírataþingmennirnir Eva Pandora Baldursdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem og Bjarni Jónsson varaþingmaður Vg.
Á fundinum kom skýrt fram vilji Sveitarfélagsins um áframhaldandi samstarf við barnaverndaryfirvöld um rekstur meðferðarheimilis enda bæði eftirspurn og þörf á slíkri starfsemi þvert á fullyrðingar Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu sem telur ekki svo vera. Þjónustusamningur stofunnar við Hádranga rennur út nú um mánaðarmót en starfsemin lagðist af fyrr í sumar. Fyrrum starfsmenn heimilisins eru fullir áhuga á að taka við keflinu enda mikil reynsla og kunnátta til staðar.
Til að uppfylla ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var á Háholti innréttuð viðunandi aðstaða árið 2014 fyrir ungmenni sem ættu við mjög alvarlegan vímuefna- eða afbrotavanda að stríða og þá sem þyrftu að afplána óskilorðsbundna dóma. Þannig aðstaða er ekki til annars staðar á landinu.
Til stendur að byggja nýtt heimili á höfuðborgarsvæðinu en fullyrt var á fundinum að ekki væri enn búið að finna staðsetningu né heldur hanna byggingu sem hæfir starfsemi og því undarlegt að segja upp samningi við Háholt áður en það er í höfn. Samningur Barnaverndarstofu við Svf. Skagafjörð vegna leigu á húsnæði Háholts rennur ekki út fyrr en eftir ár og mun stofan því þurfa að borga leigu hvort sem starfsemi verður í húsinu eður ei. Það var helst að sjá eftir fundinn að mikill áhugi er hjá heimamönnum um að rekstur Háholts komist af stað á ný enda árangur meðferðúræða á Háholti góður í gegnum tíðina.
Ingólfur Jón Geirsson, einn skipuleggjenda fundarins sagði fundinn hafa tekast vel og verið mjög málefnalegur. „Við fundum fyrir miklum stuðningi fundarmanna sem og þeirra sem ekki komust á fundinn en hittu okkur fyrr um daginn eða hringdu. Við erum ánægðir með þá aðstoð sem sveitarfélagið Skagafjörður hefur veitt okkur í þessari baráttu og vonumst til að fleiri leggi okkur lið í áframhaldandi baráttu.“ Ingólfur segir starfsfólk sjá fyrir sér að Háholt sinni áfram unglingum í erfiðum vímuefna- og eða afbrotavanda byggða á reynslu og góðum grunni í þeim mannauði sem til staðar er og halda áfram að bæta við sig þekkingu og reynslu.