Vilja hreinsa Hróarsgötur

Gula línan sýnir hvar Hróarsgötur liggja. Mynd af Visitskagafjordur.is
Gula línan sýnir hvar Hróarsgötur liggja. Mynd af Visitskagafjordur.is

Reiðveganefnd Hestamannafélagsins Skagfirðings hefur óskað eftir leyfi skipulags- og byggingarnefndar Svf. Skagafjarðar til að ráðast í hreinsun á svokölluðum Hróarsgötum, sem er forn þjóðleið um Tindastól. Um er að ræða þann hluta leiðarinnar sem liggur ofan Veðramóts og að Skíðastöðum.

Fyrirspurn hestamannafélagsins var tekin fyrir á fundi nefndarinnar í síðustu viku og segir í fundargerð að Hróarsgötur séu merkt reiðleið á sveitarfélagsuppdrætti í tillögu að Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Hróarsgötum „hefur ekki verið haldið við alllengi og hafa sums staðar fallið skriður yfir göturnar og spillt þeim“, eins og segir í fornleifaskráningu Guðmundar Ólafssonar frá árinu 1998.

Ætlun hestamannafélagsins er að ráða bót á og fara um göturnar með jarðýtu til að hreinsa skriður af götunum. „Farið verður af aðgætni um svæðið og framkvæmdum hagað með þeim hætti að ekki verði ráðist í meira rask en þörf er á. Stefnt er að framkvæmdinni í september eða þegar leyfi hefur verið veitt fyrir henni. Vert er að halda þessari fornu þjóðleið við og tryggja að hún nýtist eins og gert er ráð fyrir í nýju aðalskipulagi.“

Ekki var hægt að afgreiða beiðni Skagfirðings á þessum fundi þar sem enn vantar tilskilin gögn.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir