Vilja ráða ungt fólk í sumarbúðirnar í Háholti

Mikið fjör í sumarbúðunum í Reykjadal en í Háholti í Skagafirði á að skapa ævintýri þar sem ungt, ábyrgt og hresst fólk verður í framlínunni. Aðsendar myndir.
Mikið fjör í sumarbúðunum í Reykjadal en í Háholti í Skagafirði á að skapa ævintýri þar sem ungt, ábyrgt og hresst fólk verður í framlínunni. Aðsendar myndir.

Í Háholti í Skagafirði er nú unnið að því hörðum höndum að koma húsnæðinu í stand sem fyrst þar sem ætlunin er að starfrækja sumarbúðir fyrir ungmenni með ADHD og eða einhverfu eins og Feykir greindi frá í síðustu viku. Þar sem stefnt er að því að fyrstu gestirnir komi um miðjan mánuðinn er leitað að áhugasömu starfsfólki. Feykir hafði samband við Margréti Völu Marteinsdóttur, forstöðukonu Reykjadal, sem rekið hefur sumar- og helgardvalarstað fyrir börn og ungmenni með fötlun, og forvitnaðist um þá starfsemi sem fyrirhuguð er í Háholti.

„Við ætlum að skapa ævintýri þar sem að ungt, ábyrgt og hresst fólk verður í framlínunni. Í sumarbúðirnar koma börn og ungmenni með ADHD og/eða einhverfu og aðrar skyldar raskanir. Þetta er hópur sem hefur haft færri frístundatilboð en jafnaldrar þeirra. Í Háholti ætlum við að búa til skemmtilegan og eftirminnilegan vinnustað og færa líf í húsið.“

 

 

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals

 

Nú rekið þið sumarbúðir í Reykjadal einnig, verður Háholt svipuð upplifun fyrir gesti búðanna eða má búast við öðrum áherslum?
„Við leggjum mikinn metnað í starfsemina í Reykjadal og munum ekkert gefa eftir í Háholti. Við ætlum að fara mikið út af svæðinu og upplifa þau ævintýri sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða.“

Er mikil eftirspurn eftir plássi?
„Það hefur komið okkur á óvart hversu margar umsóknir hafa borist miðað við þann stutta tíma sem við höfum tekið á móti umsóknum. Það er enn hægt að sækja um.“

 

 

 Nú er verið að leita að starfsfólki við búðirnar, hvaða stöður eru í boði og hvernig gengur að manna þær?

„Ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti er að bjóða upp á spennandi sumarstarf fyrir ungt fólk. Við erum að leita eftir fólki í vaktavinnu. Unnið er eftir svokölluðu 223 vaktakerfi en um er að ræða 12-15 tíma vaktir og góð frí inn á milli. Einnig erum við með næturvaktir þar sem unnið er í viku og farið í frí í viku. Einnig erum við að leita að matráði. Við höfum fengið töluvert af umsóknum en viljum gjarnan sjá fleiri umsóknir frá ungu fólki sem búsett er í Skagafirði og nágrannasveitarfélögum Háholts.“

 

Hvaða kostum þurfa áhugasamir að vera búnir vilji þeir sækja um vinnu?
„Ungt fólk er nánast eingöngu ráðið. Sú ákvörðun að ráða eingöngu ungt fólk byggir á því að við viljum að Reykjadalur sé staður fullur af orku og lífsgleði. Við teljum að unga fólkið sé tilbúið til þess að leggja allt á sig til að gleðja gestina sem hjá okkur dvelja.“

 

Hvernig sækir fólk um?
„Hægt er að sækja um á www.reykjadalur.is eða með því að senda umsókn á reykjadalur@slf.is“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Við erum ótrúlega spennt fyrir komandi sumri og hlökkum til að skapa ævintýri með Skagfirðingum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir