Viljayfirlýsing um netþjónabú
Byggðasamlag um menningar og atvinnumál í Austur Húnavatnssýslu skrifaði sl. föstudag undir viljayfirlýsingu við Greenstone um könnun á uppsetningu netþjóðabús í A – Hún. Í dag er horft til þess að væntanleg netþjónabú rísa annað hvort á Blönduósi eða við Blönduvirkjun.
-Við erum búnir að skrifa undir þessa viljayfirlýsingu og ætlum í sameiningu að reyna að ná netþjónabú inn á svæðið. Svæðin sem við teljum að séu einhver þau bestu á landinu undir netþjónabú er á Blönduósi og við Blönduvirkjun en í raun er öll Austur Húnavatnssýslan undir, segir Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi.
Aðspurður telur Arnar Þór að alheimskreppa komi ekki til með að hafa áhrif á væntanlegt netþjónabú.
Af Hkjarna er það að frétta að þar á bæ eru menn að reikna sig í gegnum möguleikana í stöðinni og er gert ráð fyrir að ákvörðun um framhaldið liggi fyrir í kringum áramót. En hvernig skyldi ástandið á Blönduósi vera. –Það er bara nokkuð gott. Ég hef nýverið lokið heimsókn í öll fyrirtæki hér á Blönduósi og hér er mikill hugur í fólki og menn almennt bjartsýnir á að standa þetta af sér.